Logi Sigurðarson
Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, telur að það þurfi að efla til muna viðbragð Reykjavíkurborgar þegar það kemur að snjómokstri. Málefnið sé mikilvægt aðgengismál fyrir alla borgarbúa.
„Mér finnst koma vel til greina að Reykjavíkurborg kaupi snjóruðningstæki sem geta sinnt húsagötum samhliða því að verktakar sinni snjómokstri á stofnbrautum og tengivegum inn í hverfin. Viðbragðið við þessu áhlaupi hefur verið í samræmi við þann viðbúnað sem er til staðar. Það hafa verið á bilinu 9-21 tæki að moka götur og stíga frá því á föstudagskvöld. Efri byggðir hafa verið í forgangi en mér finnst vont að sjá fólk enn fast inni í götum sínum á þriðja degi,“ segir Einar.
Þykkur klaki myndaðist á götum og göngugötum miðbæjarins í gær og fljúgandi hálka var á Laugaveginum. Spurður hvað eigi að gera í því segir Einar einfaldlega að það eigi að salta. Erfitt hafi verið að komast að til þess að salta í gær og erfitt hafi verið að fá tæki, eftir því sem hann kemst næst. Menn voru ræstir út klukkan sex í morgun til þess að salta götur borgarinnar.
Snjórinn lék landsmenn grátt um helgina, björgunarsveitir fóru í fjölmörg útköll vegna bíla sem höfðu fest en akstursskilyrði voru víða krefjandi. Ferðalangar lentu einnig í veðrinu en vegna veðurs þurfti að aflýsa fjölda flugferða frá Keflavíkurflugvelli og öllum flugferðum Icelandair var aflýst á laugardagskvöld.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.