Fiskverslun Fiskikóngsins að Höfðabakka lokar á morgun. Þessu greinir eigandinn Kristján Berg Ásgeirsson frá á Facebook-síðu sinni.
„Stór tár renna niður kinnar mínar er ég neyðist til þess að tilkynna ykkur að ein elsta starfandi fiskverslun landsins LOKAR. Fiskverslun okkar að Höfðabakka 1 lokar dyrum sínum,“ skrifar hann.
Hann tilgreinir ýmsar ástæður fyrir þessu. Hátt fiskverð sé á fiskmörkuðum, erfitt sé að manna stöður, fólk versli minna af fiski og að öll aðföng hafi hækkað.
„Það er sorglegt hvernig svona verslun sem hefur verið starfrækt frá árinu 1994, þurfi að leggja upp laupana og loka. Þetta er bara fyrsta fiskverslunin sem lokar. Það eiga fleiri fiskverslanir eftir að loka. Það er klárt mál. Enda orðinn lítill grundvöllur fyrir rekstri fiskverslunar á Íslandi í dag. Pitsu og cocapuffs kynslóðin er að taka yfir og borðar minni fisk. Húsmæður landsins eru flestar útivinnandi, mötuneyti landsins bjóða orðið ekki lengur upp á fisk, ekki nema max 1x í viku og alltaf sama í matinn hjá flestum þeirra. Sem leiðir til minnkandi fiskneyslu á heimilum landsins,“ skrifar Kristján Berg.
Hann segir Íslendinga vera að gleyma uppruna sínum og bætir við að fiskur hafi verið ódýr í gamla daga. Íslendingar ættu að njóta niðurgreiðslu á fiski líkt og gert er með lambakjötið. Nefnir hann að um sjö milljarðar króna fari á ári hverju í að greiða það niður. „7 milljarðar er meiri upphæð en allir túristar sem koma hingað til lands, allir landsmenn, öll fyrirtæki, leikskólar, sjúkrastofnanir, veitingastaðir og öll fangelsi landsins greiða fyrir fiskmeti sem selt er hér innanlands,“ skrifar hann.
Verslun Fiskikóngsins á Sogavegi verður áfram opin.