Aukin ölvun samfara þungri lund ungmenna

Þórhildur og samstarfsfólk hennar við HR könnuðu áhrif kórónuveirufaraldursins á …
Þórhildur og samstarfsfólk hennar við HR könnuðu áhrif kórónuveirufaraldursins á geðheilsu og vímuefnanotkun ungmennanna og byggðu rannsókn sína á 64.000 svörum þeirra við spurningum Rannsókna og greiningar frá árunum 2018 og 2020 til 2022. mbl.is/Hari

„Við hófum að rannsaka þetta árið 2021 og vorum þá með gögn frá Rannsóknum og greiningu, sem leggja spurningar fyrir öll 13 til 18 ára ungmenni á landinu sem eru í skóla,“ segir Þórhildur Halldórsdóttir, lektor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, í samtali við Morgunblaðið.

Þórhildur og samstarfsfólk hennar við HR könnuðu áhrif kórónuveirufaraldursins á geðheilsu og vímuefnanotkun ungmennanna og byggðu rannsókn sína á 64.000 svörum þeirra við spurningum Rannsókna og greiningar frá árunum 2018 og 2020 til 2022. Birti heilbrigðisvísindaritið Lancet niðurstöðurnar á föstudaginn var í sérblaði sínu Child & Adolescent Health.

Það eru slæmu fréttirnar

„Við fundum strax árið 2020, snemma í faraldrinum, að vanlíðan jókst, sérstaklega þunglyndiseinkenni, en á hinn bóginn dróst vímuefnaneysla saman, það er að segja notkun á sígarettum, rafrettum og áfengi og þá erum við að tala um tilfelli þegar svarendur drukku sig fulla, spurt var hvort þeir hefðu gert það síðustu 30 daga,“ heldur Þórhildur áfram.

Við skoðun gagna ársins 2022 komust Þórhildur og samstarfsfólk hennar að raun um að aukið þunglyndi og vanlíðan væri viðvarandi hjá hópnum þrátt fyrir að áhrifa faraldursins gætti í mjög dvínandi mæli. „Það eru auðvitað slæmu fréttirnar,“ segir lektorinn en bendir á að á hinn bóginn hafi tóbaksneyslan áfram verið á niðurleið en áfengisdrykkja hins vegar færst í aukana eftir að samkomubönnum var aflétt.

Ólund og áfengi vond blanda

Þórhildur býður þá tilgátu um minni áfengisneyslu í faraldrinum að fyrstu skref unglinga á þeim vettvangi séu gjarnan í partíum með jafnöldrum þar sem margir smakki áfengi í fyrsta sinn. „Núna voru engin partí svo þau byrjuðu ekkert að prófa sig áfram, þetta er svo félagslegt á þessum tíma,“ bendir hún á, „áfengisneyslan er að færast í fyrra horf og hér er áhyggjuefni að vanlíðan aukist samfara áfengisdrykkju, það er ekki jákvæð blanda og þetta er eitthvað sem þarf að fylgjast með,“ segir Þórhildur og nefnir íhlutun í skólakerfinu sem mögulega leið til úrbóta hvað þá þróun snertir sem hún og samstarfsfólk hennar sjá gegnum rannsóknir sínar.

„Fólk er ekki búið að jafna sig almennt eftir faraldurinn held ég og ungmenni átta sig alveg á því að þau hafa misst af einhverju í sínum uppvexti, það er hræðilegt að vera 16 ára og missa af fyrsta árinu í menntó, þetta er mjög leiðinlegur raunveruleiki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert