Segir ákvörðun Íslands hafa komið Rússum á óvart

Talsmaður rússneska sendiráðsins kveðst vona að saga Rússlands og Íslands …
Talsmaður rússneska sendiráðsins kveðst vona að saga Rússlands og Íslands falli ekki í gleymsku þjóðarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsmaður rússneska sendiráðsins á Íslandi, Ivan Glinkin, segir ákvörðun utanríkisráðherra Íslands hafa komið Rússum að óvörum. Í samtali við mbl.is vitnar Glinkin í rússnesk spakmæli og segir það „mjög auðvelt að eyðileggja, en mjög erfitt að byggja.“

Utanríkisráðuneyti Íslands tilkynnti í gær að sendiráði Íslands í Moskvu yrði lokað og sendiherrann kallaður heim. Þá væri ætlast til að Rússar kölluðu sendiherra sinn hér á landi heim.

Í samtali við mbl.is segir Glinkin það mikla synd í ljósi þess að Ísland og Rússland fagni 80 ára samstarfi í ár. Sovétríkin hafi verið eitt af fyrstu ríkjum heims til að viðurkenna sjálfstæði Íslands frá Danmörku á sínum tíma. Kveðst Glinkin því vona að saga landanna og stuðningur Rússlands við Ísland á erfiðum tímum falli ekki í gleymsku þjóðarinnar. 

Samskipti framtíðar í höndum Íslands

Hann kveðst ekki getað svarað því að svo stöddu hvernig samskiptum þjóðanna verði háttað í framtíðinni, en vísar til tilkynningar rússneska utanríkisráðuneytisins varðandi málið. Ráðuneytið gaf frá sér tilkynningu rétt fyrir hádegi í dag og sögðu aðgerðir Íslands eyðileggja allt sam­starf milli landanna.

Glinkin segir framtíðarsamskipti þjóðanna að miklu leyti undir íslenskum stjórnvöldum komin, enda sé ákvörðunin um að draga úr samskiptum alfarið þeirra.

Hvort Rússland verði opið fyrir auknum samskiptum í framtíðinni geti hann ekki svarað fyrir, en eitt sé víst, að and-rússneskar aðgerðir muni hafa áhrif á uppbyggingu tengsla í framtíðinni.

Rússland og Ísland eigi margt sameiginlegt

Hann staðfestir að sendiherra verði ekki í svari fyrir Rússland á Íslandi til frambúðar, en kveðst ekki vita um framhaldið. Það sé á valdi rússneska utanríkisráðuneytisins að ákveða hvort ræðismaður verði hér á landi í stað sendiherra, þar sem Ísland hafi ekki farið fram á að Rússar hætti allri diplómatískri starfsemi á landinu.

Glinkin tjáir blaðamanni í lok viðtals að hann voni að Íslendingar hafi í huga að Rússland hafi aldrei gert íslensku þjóðinni mein. Sovétríkin og síðar Rússland hefðu veitt þjóðinni stuðning í gegnum erfiða tíma.

„Kannski munu þjóðirnar eiga eitthvað sameiginlegt aftur, ef Ísland kemur aftur til móts við okkur. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka