„Það er eins og við Íslendingar séum hræddir við að stinga upp á íslenskum heitum því það muni fæla ferðamenn frá, en sagan segir okkur að það hefur í raun þveröfug áhrif.“ Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, en heiti aðstöðunnar Highland Base – Kerlingarfjöll mætti á dögunum mikilli gagnrýni inni á facebookhópnum Málvöndunarþátturinn fyrir það að íslenska heitið sé seinna nafnið.
Eiríkur segist ekki skilja tilgang þess að flagga enska nafninu sérstaklega og nota það sem fyrra nafnið.
Umrædd aðstaða verður opnuð 1. júlí næstkomandi og verður þar hálendismiðstöð sem býður upp á fjölbreytta gistimöguleika ásamt afþreyingu.
Eiríkur segir að ferðamenn hafi alla jafna gaman af því að spreyta sig á íslenskum heitum og orðum.
„Flest viljum við fá einhverja nasasjón af máli og menningu þar sem við komum, til dæmis hafa ferðamenn alltaf verið mjög spenntir fyrir því að prufa sig áfram með framburðinn á orðinu Eyjafjallajökull.“
Magnús Orri Marínarson Schram framkvæmdastjóri Kerlingarfjalla segir að ákvörðunin um að hafa samansett enskt-íslenskt heiti hafi verið tekin fyrst og fremst til þess að tryggja að sem flestir skilji hvað sé um að ræða á svæðinu.
„Við notum alltaf þessi tvö heiti saman, en íslenska nafnið er frekar erfitt í framburði fyrir stóran hóp erlendra ferðamanna og þess vegna var ákveðið að vera með tvö nöfn.“
Magnús segir að ákveðið hafi verið að nota enska orðið fyrst því það útskýri hvernig aðstaðan er og svo íslenska orðið því það útskýri staðsetninguna. „Þetta kemur mun betur út svona.“
„Mér finnst við ekki vera að gefa neinn afslátt af íslenskri tungu með því að hafa bæði íslenskt og enskt nafn.“