Allt bendir til þess að gos sé í uppsiglingu

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í bergfræði og eldfjallafræðum við Háskóla Íslands, segir skjálftavirknina nú benda til þess að eldgos sé í aðsigi.

Skjálftavirknin sé frekar grunn, eða á 3-6 kílómetra dýpi, og ljóst að skjálftarnir tengjast kvikuhreyfingum. 

Því megi ætla að kvika sé komin ansi nálægt yfirborði.

Stórt dyngjugos þekkt í sögunni

Þorvaldur telur að mögulegt gos verði á svipuðum slóðum og gosin 2021 og 2022, mögulega eitthvað norðar en gosið 2022 í Meradölum.

Hann segir að sé það rétt að landris hafi greinst víðar en við Fagradalsfjall. Þá megi ætla að rúmmál kvikunnar sé töluvert.

Sé saga eldgosa á Reykjanesskaga skoðuð þá hafi dyngjugos gjarnan byrjað á smærri gosum í aðdragandanum. Slík gos eru mun meiri að umfangi en þau sem á undan fara. Fari svo getur það valdið margs konar áhrifum í byggð.

Gossprunga í Geldingadölum 2021.
Gossprunga í Geldingadölum 2021. mbl.is/Arnþór

Gasmengun hefur áhrif á byggð

Víðtækustu áhrifin sem verða af svona gosi felast í gasmengun.

Magn hennar fer eftir því hversu mikil kvika leitar upp og því hversu mikið af brennisteinsefnum fer út í andrúmsloftið.

Standi gosið í langan tíma getur það leitt til óþæginda fyrir nágrannabyggðir eins og Grindavík, Reykjanesbæ og Voga, og mun í raun hafa áhrif á höfuðborgarsvæðið allt. Áhrif gasmengunar fer eftir vindáttum en hún hefði víðtækustu áhrifin á byggð.

Víðtæk áhrif á byggð og innviði

Þorvaldur segir að menn muni finna fyrir skjálftum í aðdragandanum en þeir muni líklega ekki valda stórfelldum skaða. Skaði af hraunflæði fer eftir umfangi gossins.

Gosin í Geldingadölum og Meradölum hafi verið lítil gos, en úr þeim hafi komið um 4-8 rúmmetrar á sekúndu. Stærra gos gæti leitt til stærra hrauns en á styttri tíma.

Eldsumbrot geti haft víðtækari áhrif á jarðhitakerfi á svæðinu og gætu þá bæði virkjanir og ferðaþjónustufyrirtæki eins og Bláa lónið fundið fyrir áhrifunum. Hraun geti líka flætt yfir innviði eins og vegi, og eru þá Reykjanesbraut og Suðurstrandarvegur helst nefndir í því samhengi.

Þorvaldur minnist á hugmynd Magnúsar Rafnssonar verkfræðings um að mögulega væri hægt að gera brú yfir mikilvæga innviði. Hraunið væri þannig leitt til sjávar án þess að vegir eða aðrir innviðir yrðu fyrir skaða. Væri það frumraun á heimsvísu með slíkar lausnir.

300 ára tímabil hafið

„Ég held að við þurfum að búa okkur undir tímabil viðvarandi eldsumbrota. Það er allt sem bendir til að svona eldumbrotatímabil sé komið í gang, og svona gæti þetta verið næstu 300 árin,“ segir Þorvaldur að lokum.

„Við getum lært að búa með þessu. Þurfum að setja hugvit og peninga í málið og þá leysum við þetta. Við þurfum líka að læra að lifa með náttúrunni, hún stjórnar þessu, ekki við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert