„Þetta er ekki í boði“

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, ræddi við mbl.is um Surtseyjarferð Ágústs.
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, ræddi við mbl.is um Surtseyjarferð Ágústs.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segist hafa frétt af kajakferð Eyjamannsins Ágústs Halldórssonar út í Surtsey.

„Þetta er ekki í boði. Við vitum af þessu og erum að bregðast við því,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Sigrún útilokar ekki að málið endi á borði lögreglunnar.

Hún segir engan mega fara út í eyjuna nema með skriflegu leyfi og þau séu einkum veitt vísindamönnum. Eyjan er friðlýst að fullu og er að auki á heimsminjaskrá UNESCO.

Lifandi rannsóknarstofa

„Eyjan er lifandi rannsóknarstofa. Við erum fylgjast með þessari einstöku eyju sem gaus upp 1963 og hvernig líf nemur þar land. Þess vegna þarf umgengni um eyjuna að vera mjög vönduð. Allur búnaður og fatnaður sem fer í eyjuna er hreinsaður áður en haldið er út. Það gilda mjög strangar reglur um umferð í eyjuna til þess að við getum fylgst með þessu á ótruflaðan hátt.“

Sigrún segir fólk hafa almennt virt þetta bann og það dýrmæta rannsóknarstarf sem hafi verið unnið þar. „Surtsey nýtur virðingar fyrir þetta einstaka eðli sitt og tilgang.“

Hún segir Umhverfisstofnun hafa veitt almenningi aðgang að eyjunni í formi myndefnis, þar sem unnar hafa verið heimildamyndir þegar eftirlitsmenn stofnunarinnar fara út í eyjuna. Almenningur geti þannig fylgst með þróun eyjunnar og rannsóknum á henni.

Í samtali við K100 kvaðst Ágúst ekki hafa ætlað sér sérstaklega að heimsækja náttúruperluna, heldur þurft að sækja þangað vegna sjávarháska.

Myndskeið Ágústs af ferðum hans um Surtsey hefur vakið athygli. Með myndskeiðinu skrifar Ágúst að hann sé sá fyrsti í heiminum til að róa á kajak út í eyna. 

@agusthall

Fyrstur í heiminum til að róa á kayak út í Surtsey. 🙌🏼 Surtsey varð til í eldgosi árið 1963. 🤓

♬ I Wanna Be Adored - The Stone Roses

Friðuð og á lista UNESCO

Surtsey var friðuð árið 1965 meðan gosvirkni var enn í gangi og var friðunin bundin við eldfjallið ofansjávar. Með friðlýsingunni var tekið fyrir umferð ferðamanna út í eyna og gildir það enn þann dag í dag, nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar.

Var þetta gert fyrst og fremst til að forðast aðflutning lífvera af mannavöldum, til að vernda viðkvæma náttúru og stuðla að því að eyjan fengi að þróast eftir lögmálum náttúrunnar án áhrifa eða afskipta mannsins, að því er segir á vef stofnunarinnar.

Síðar var friðlandið stækkað verulega og nær í dag yfir alla eldstöðina Surtsey, ásamt hafsvæði umhverfis, samtals 65 ferkílómetra.

Surtsey varð árið 2008 aðeins annað svæðið á Íslandi til að verða samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO, á eftir Þingvöllum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert