Skoluðu transfánann af götunni

Starfsmenn skoluðu transfánann burt á Vegamótastíg í dag.
Starfsmenn skoluðu transfánann burt á Vegamótastíg í dag. Ljósmynd/Aðsend

Vegfarendur á Vegamótastíg tóku eftir því í dag að starfsmenn voru í óðaönn að skola burtu transfánann sem prýtt hefur götuna undanfarna daga.

Fáninn var málaður við hátíðlega athöfn í síðustu viku þegar Hinsegin dagar voru settir.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, sagði við það tilefni að fáninn hefði verið málaður til að „lyfta sérstaklega málstað og baráttumálum trans fólks sem er sá hópur í hinsegin samfélaginu sem finnur kannski hvað skýrast hvernig umræðan er að breytast og verður fyrir þessu bakslagi sem við höfum verið að tala um“.

Transfáninn var málaður við setningu Hinsegin daga í síðustu viku.
Transfáninn var málaður við setningu Hinsegin daga í síðustu viku. Ljósmynd/Ragnar Veigar Guðmundsson

Ekki málaðir með annað í huga

Inga Auðbjörg K. Straumland, framkvæmdastjóri Hinsegin daga, sagði það eðlilegt að fáninn væri skolaður burtu núna.

„Tímabundnir fánar á Hinsegin dögum hafa alltaf lifað stutt. Þeir eru ekki málaðir með annað í huga og myndu fljótlega láta á sjá. Þetta var hugsað sem einnar viku listgjörningur.

Fáninn á Skólavörðustíg er aftur á móti ótímabundinn. Mér skilst að ný lögn hans eigi að endast árum saman. Ég væri hins vegar persónulega ekkert á móti því að allar götur bæjarins væru málaðar í hinsegin fánum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert