Áform borgarinnar um hækkun bílastæðagjalda og lengri gjaldskyldu á virkum dögum er sögð koma illa við þær hverfaverslanir sem enn eru reknar á umræddum svæðum. Tillaga um bílastæðakort fyrir rekstraraðila hefur verið lögð fram.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu um bílastæðakort fyrir rekstraraðila á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í gær.
Tillagan snýr að því að rekstraraðilar í íbúðahverfum á gjaldsvæðum Bílastæðasjóðs, sem sinna beinni og daglegri nærþjónustu við íbúa á gjaldsvæðum Bílastæðasjóðs, t.d. rekstri hverfisverslana, verði gefinn kostur á að kaupa bílastæðakort samkvæmt gjaldskrá sjóðsins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir tillöguna tilkomna vegna áforma borgarinnar um að hækka bílastæðagjöld um 40% og lengja gjaldskyldu til klukkan 21.00 öll kvöld. Á sama tíma og gjaldskylda er færð út í íbúðahverfin.
Hann segir aðgerðirnar koma illa við þær hverfaverslanir sem enn eru reknar í umræddum hverfum. Þá sé kaupmaðurinn á horninu í viðkvæmri stöðu og segir Kjartan kaupmenn mega illa við kostnaði og umstangi vegna bílastæðis ofan á allt anna.
Tillagan var sem áður sagði lögð fram á fundinum í gær en afgreiðslu hennar þó frestað til næsta fundar ráðsins.