Forsætisráðherra hefur ekki áhyggjur af því að Bandaríkin dragi úr fjárframlögum til Úkraínu, en hefur áhyggjur af því að umræða þess efnis sé að fá aukinn byr undir báða vængi. Hún segir þó afstöðu Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, varðandi stuðning til Úkraínu skýra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi hins pólitíska bandalags Evrópuríkja í Granada á Spáni í gær. Á fundinum var meðal annars rætt um stöðuna í Úkraínu og ávarpaði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, til að mynda fundinn.
Vettvangurinn var stofnaður á síðasta ári en alls taka nú 47 ríki þátt í starfinu.
Katrín segir um að ræða áhugaverðan vettvang fyrir Ísland að taka þátt í, enda ekki með aðild að Evrópusambandinu. „Þarna erum við með beint talsamband við leiðtoga Evrópu,“ segir hún en hugsunin á bak við stofnun vettvangsins var stríðið í Úkraínu og samstaða við Úkraínu.
„Það er ljóst að nú hefur stríðið dregist á langinn, eins og margir spáðu, og átök um stuðning við Úkraínu hafa vaxið í tilteknum ríkjum sambandsins,“ segir hún og nefnir sem dæmi að stuðningurinn sé til umræðu í kosningum sem nú eru fram undan í Póllandi. Auk þess sem stuðningurinn var kosningamál í Slóvakíu, þar sem nýlega voru kosningar.
„Nú hefur stríðið dregið á langinn, þannig að þetta reynir á. Nú reynir á samstöðuna.“
Hefur þú áhyggjur af því að Bandaríkin dragi úr fjármagni til Úkraínu?
„Já ég myndi nú ekki gera úr því skóna að það sé að fara að gerast. Forseti Bandaríkjanna hefur verið mjög skýr og Selenskí var í heimsókn hjá honum í síðustu viku, þannig að ég myndi ekki reikna með því. Það sem er áhyggjuefni er að finna að þessi umræða er að fá aukinn byr undir báða vængi.“
Hefur þú áhyggjur af því sem er að gerast í Bandaríkjunum?
„Það eru töluvert áhyggjuvaldandi fréttir sem berast frá Bandaríska þinginu núna með forseta þingsins. Þetta er afar óvenjuleg þróun og ljóst má vera að það eru einhverjir, sérstaklega í röðum repúblikana sem að tala mjög gegn stuðningi við Úkraínu. En heilt yfir hefur samstaðan verið ótrúlega mikil satt að segja,“ segir hún.
Katrín segir ekki endilega óvenjulegt að umræða gegn stuðningi „blossi upp hér og þar,“ enda stríðið í Úkraínu ekki eina stríðið í heiminum þó það fái mikla umfjöllum. Í því samhengi nefnir hún stöðuna í Nagorono-Karabakh þaðan sem um 100 þúsund manns flúðu heimili sín til Argentínu á um sólarhring.
Þá nefnir hún óstöðugleikann á Balkanskaga og titring víða í Evrópu.
„Þannig að það kannski kemur ekki endilega á óvart að það séu raddir uppi sem að tala gegn samstöðunni, en ég myndi segja að hún væri mjög sterk enn þá.“