Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir það ekki hafa verið ætlun sína að vega að Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í ræðu sinni á ráðstefnu fyrirtækja í sjávarútvegi í vikunni. Hún segist skilja að Svandísi hafi sárnað orð hennar.
Blaðamaður ræddi við Áslaugu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun en Svandís kýs ekki að tjá sig um ummæli Áslaugar.
Framsetningin á skotinu þínu á Svandísi vakti athygli. Ef þú horfir til baka hefðir þú gert þetta einhvern veginn öðruvísi?
„Ég nefndi þarna mál sem hafa verið málefni dagsins og þau heyra ekki undir mig og ég ætlaði ekki að ræða þau. En auðvitað er eftirspurn eftir því að ræða þessi mál á sjávarútvegsdeginum. Í ræðu minni beindi ég sjónum mínum að öðrum kerfum eins og menntakerfinu sem ég tel að þurfi meiri umfjöllun og meira pláss í fjölmiðlum. Hversu mikilvægt það er fyrir samkeppnishæfni Íslands. Ég sagði talsvert skýrt að ég ætlaði ekki að ræða heitustu málin í dag og heyra undir annan ráðherra“
Þú tiltekur hana af því þetta er sjávarútvegsráðherra?
„Í þeirri umræðu birti ég mynd af matvælaráðherra sem ég hefði betur mátt sleppa. Mér þykir það leitt því það setti orð mín í annað samhengi en ætlunin var.“
Setur myndklippan af upphafi ræðunnar þetta í annað samhengi að þínu mati?
„Ef ekki er horft á ræðuna í heild sinni er alltaf hægt að klippa þetta úr samhengi. Umfjöllunin hefur verið umfram tilefni að mínu mati.“
Var þetta rætt á fundinum?
„Nei við settum þetta ekki sérstaklega á dagskrá en við ræðum ríkisstjórnarsamstarfið reglulega.“
Áslaug segist hafa rætt við Svandísi um orð sín. Spurð hvernig hún tók þeim umleitunum segir Áslaug:
„Ég skil vel að henni sárnaði þetta. Enda nefndi ég mál sem hafa verið í mikilli umfjöllun. Ætlunin var ekki að ræða um einstakling eða persónu heldur að segja að þessi mál heyrðu undir annan ráðherra og ég ætlaði ekki að ræða þau.“