Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir alla vinnu fulltrúa verkalýðsfélaganna og Samtaka atvinnulífsins byggja á því að stjórnvöld komi að borðinu líkt og kallað hefur verið eftir.
Segist hann reikna með að samningsaðilar muni kalla eftir afstöðu stjórnvalda fyrir vikulok, en talað hefur verið um að aðkoma ríkisins gæti kostað ríkið 20-35 milljarða árlega.
Samningsaðilar, sem saman standa af nýju bandalagi stéttarfélaga sem saman fara með samningsumboð 93% launafólks innan ASÍ, og Samtökum atvinnulífsins, funduðu í dag í húsnæði ríkissáttasemjara og segir Ragnar vinnuna hafa gengið vel.
„Við erum á áætlun með samtalið og erum að fara í að reikna. Sérfræðingahópar samningsaðila eru að vinna í allan dag og sömuleiðis við líka, samninganefndirnar, varðandi heildarmyndina,“ sagði hann við blaðamann mbl.is eftir fundinn. „Ég myndi segja að fundurinn hafi gengið vel, betur en ég vonaðist og var þó nokkuð bjartsýnn fyrir,“ bætti hann við.
Ragnar leggur áherslu á að nú þurfi að fá fram afstöðu stjórnvalda til þess hvort vinnan geti haldið áfram, en það helgast af því hvort ríkið ætli að verða við kröfum samningsaðila sem lagðar hafa verið fram.
Er þar meðal annars horft til þess að ríkið auki útgjöld sín í tilfærslukerfin um 20-25 milljarða árlega, en það eru vaxta-, húsnæðis- og barnabótakerfin. Ragnar segir einnig að horft sé til húsnæðismála og uppbyggingar á húsnæðismarkaði.
„Ég reikna með að við köllum eftir afstöðu stjórnvalda fyrir vikulok,“ segir hann. Svör ríkisins séu „forsenda þess að við getum gengið frá kjarasamningum sem tala inn í það svigrúm sem Seðlabankinn hefur kallað eftir til að geta hafið vaxtalækkunarferli.“
Ragnar segir sveitarfélögin einnig þurfa að skuldbinda sig til að draga gjaldskrárhækkanir sínar til baka og setja þak á frekari hækkanir, „líkt og gert var í lífskjarasamningum 2019“.
Þá segir hann atvinnulífið einnig þurfa að taka þátt í þessari vegferð og að fyrirtæki þurfi að endurskoða sínar hækkanir undanfarið. „Þetta er ekki einfalt og nóg að einn aðili dragi sig úr þessari jöfnu svo þessi vinna fari forgörðum.“
Ragnar virðist þó vera bjartsýnn á vinnuna fram undan og tekur fram að þessi nýi hópur stéttarfélaga og SA séu mjög samstiga í vinnunni og að hann muni ekki eftir að slík staða hafi verið uppi síðan hann byrjaði að vinna á vettvangi verkalýðsfélaganna.
Spurður nánar út í upphæðirnar sem um ræðir segir hann rétt að þær séu 20-25 milljarðar árlega.
„Þetta eru reyndar ekki háar tölur miðað við margt sem ríkið hefur verið að gera,“ segir Ragnar og vísar til þess að kostnaður ríkisins í kringum heimsfaraldurinn, „sem fóru meira og minna til fyrirtækjanna“, hafi verið um 450 milljarðar. Þá segir hann þetta ekki ólíkar tölur og sáust í lífskjarasamningum.
Spurður út í þá samningslengt sem unnið sé með segir hann að hópur stéttarfélaga hafi að lágmarki horft til þriggja ára og Samtök atvinnulífsins til lágmarks fimm ára. „Við erum mögulega að horfa til fjögurra ára samnings,“ segir Ragnar, en bætir við að þessi árafjöldi sé ekki ágreiningsefni, heldur markmið sem samningsaðilar hafi sett fram.
Samningsaðilar munu aftur funda á morgun kl. 10 að sögn Ragnars og halda vinnunni áfram.