Landsframleiðsla dróst saman á öðrum ársfjórðungi og er þetta því annar ársfjórðungurinn í röð þar sem er samdráttur. Hagfræðingur vill þó ekki ganga svo langt að segja að hagkerfið sé í kreppu
Skýr merki eru þó um að hagkerfið sé farið að kólna.
„Ég myndi nú ekki þora að fullyrða neitt svo stórkarlalegt,“ segir Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, spurður hvort að hagkerfið sé í kreppu.
Í grein á Vísindavefnum eftir Gylfa segir að stundum sé notuð sem þumalputtaregla að ef þjóðarframleiðsla dregst saman að raunvirði tvo ársfjórðunga í röð þá sé hagkerfið í kreppu.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, deildi einmitt þessari grein á facebook fyrr í dag og sagði hagfræðinga hafa skýrt heiti á samdrátt tvo ársfjórðunga í röð: Kreppa.
Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 0,3% að raungildi á öðrum ársfjórðungi 2024 borið saman við sama tímabil fyrra árs.
„Þetta eru bráðabirgðartölur og reynslan sýnir að Hagstofan endurskoðar oft – og reyndar eiginlega alltaf – slíkar tölur þegar þeir fá betri gögn. Líta sjálfir á þetta sem bráðabirgðartölur,“ segir Gylfi um Hagstofu og bætir við:
„Þannig það getur vel verið að þegar öll kurl er komin til grafar, sem er kannski ekki fyrr en eftir tvö ár, þá munum við staðfesta einhvern samdrátt. En ég myndi allavega ekki þora að líta svo á að það sé meitlað í stein núna.“
Hann segir að samdráttartölur þyrftu að vera meira afgerandi og fleiri skýrari mælikvarðar, ef komast ætti að þeirri niðurstöðu að um kreppu sé að ræða.
„Hækkandi atvinnuleysi, vandræði í fjármálakerfinu, vanskil og slíkt,“ nefnir hann sem dæmi.
„Það er nú samt hægt að fullyrða að það séu skýrar vísbendingar um að hagkerfið sé eitthvað að kólna eftir þrjú nokkuð hraustleg hagvaxtarár,“ segir Gylfi.
Það komi þó ekki sérstaklega á óvart í ljósi hárra stýrivaxta Seðlabankans, sem séu einmitt háir til þess að vinna bug á verðbólgu og kæla hagkerfið.
Hann segir að það eina jákvæða við kólnandi hagkerfi sé það að það bendi til þess að baráttan við verðbólguna sé að hafa áhrif.
„Vonandi verður þá bara mjúk lending þar sem verðbólga næst niður án þess að hagkerfið fari í allt of mikla dýfu fyrir vikið,“ segir hann.
Hann bendir á að í tölum Hagstofu sjáist að útflutningur og einkaneysla séu aðeins að gefa eftir en að fjárfesting sé að vaxa.
„Sem bendir nú til þess að allavega stjórnendur í viðskiptalífinu séu ekki það svartsýnir á framtíðina að þeir séu hættir að fjárfesta.“