Ásgeir Bolli Kristinsson, oft kenndur við verslunina 17, hefur beðist afsökunar á ummælum sem hann lét nýverið falla og hafa verið gagnrýnd.
„Þetta var frekar óheppileg samlíking sem ég hafði nú í útvarpinu,“ segir Bolli í samtali við Reykjavík síðdegis í dag.
Snerust upprunalegu ummælin um hugmynd Bolla hvort sjálfstæðismenn mættu bjóða fram viðbótarlista fyrir Sjálfstæðisflokkinn undir merkjum DD-lista.
Hann sagði jafnframt að hann myndi vilja fá fólk á þann lista sem hefði áorkað einhverju í lífinu. Í viðtalinu í dag sagði hann sjálfur frá orðum sínum sem voru hvað mest gagnrýnd:
„Ég hafði sagt að ég vildi ekki fá á þann lista einhverjar ungar stúlkur nýútskrifaðar úr skóla, 17-18 ára, sem hugsuðu bara um neglurnar á sér og hárið. Ég biðst bara afsökunar á því. Þetta var ekki það sem innihaldið snýst um.“