Það þekkist bæði að foreldrar grunnskólabarna óski eftir því að fá að fylgjast með í skólastofum barna sinna og að kennarar óski eftir nærveru foreldra í ákveðnum tilfellum. En mikilvægt er að allir gæti trúnaðar um það sem fram fer í skólastofunni.
„Það þarf alltaf að vinna öll svona mál í góðu samstarfi við heimilin. Svo er þetta bara svipað og ef þú ferð inn á sjúkrastofu, fólk þarf að gæta trúnaðar um allt sem það verður vitni að við þær aðstæður sem eru inni í skólum. Það er ekkert öðruvísi en þegar fólk fer inn á sjúkrastofnun,“ segir Mjöll Matthíasdóttir, formaður félags grunnskólakennara.
„Það er alltaf vandmeðfarið, alveg sama hver í hlut á,“ bætir hún við.
Greint var frá því um helgina að yfir 60 foreldrar barna í fyrsta bekk í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ hefðu sent bæjaryfirvöldum bréf þar sem óskað var eftir að gripið yrði til aðgerða vegna móður eins nemanda í skólanum sem neitaði að yfirgefa skólastofu.
Fram kom að kennarar treystu sér ekki til að sinna kennslu vegna framgöngu konunnar.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is er málið tekið alvarlega og er það í skoðun hjá fræðslu- og frístundasviði Mosfellsbæjar.
Mjöll þekkir ekki til þessa tiltekna máls og vill ekki tjá sig um það.
En hún segir að komi foreldrar inn í skólastofur til að fylgjast með skólastarfinu fylgi því töluverð ábyrgð, enda verði þeir vitni að hegðun og framkomu, ekki bara síns eigin barns, heldur einnig annarra barna. Foreldrum beri að gæta þagmælsku og virða trúnað líkt og starfsfólki skólans.
„Auðvitað er æskilegt að hafa sem minnst viðbótar eða auka áreiti inni í skólastofum og skólastarfi. Það getur valdið öðrum börnum mikilli truflun þegar fólk sem þau þekkja lítið sem ekkert er allt í einu komið inn í þeirra vinnuaðstæður. En þetta er fín lína því svo viljum við vera í góðu samstarfi við foreldra.“
Mjöll kannast ekki við að foreldrar eigi rétt á að fá að sitja inni í skólastofu meðan á kennslu stendur, enda sé ekkert um það í grunnskólalögum. Slíkt sé eingöngu samkomulagsatriði á milli kennara og foreldra.
Hún segir ástæðurnar fyrir því að foreldrar vilji fá að fylgjast með séu jafn margar og börnin eru mörg.