Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata, nýtur yfirgnæfandi stuðnings meðal Íslendinga.
Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup myndi 91% íslensku þjóðarinnar kjósa hana ef hægt væri að greiða atkvæði í bandarísku forsetakosningunum.
Aðeins 9% segjast myndu kjósa Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og forsetaframbjóðanda repúblikana.
Konur eru líklegri en karlar til að kjósa Harris. Þannig lýsa 96% kvenna stuðningi við varaforsetann samanborið við 85% karla. Þá myndu 15% karla kjósa Trump en aðeins 4% kvenna.
Sá aldurshópur sem væri líklegastur til að kjósa Harris er fólk á aldrinum 50-59 ára. 97% þeirra segjast myndu kjósa Harris en aðeins 3% segjast myndu kjósa Trump.
Sá aldurshópur sem væri líklegastur til að kjósa Trump er fólk á aldrinum 40-49 ára. 15% segjast myndu kjósa Trump en 85% segjast myndu kjósa Harris.
Þannig má áætla að karlmenn á fimmtugsaldri séu líklegastir til að kjósa Trump.
Þegar tekið er mið af skoðunum fólks á íslenskum stjórnmálum kemur í ljós að þeir sem myndu skila auðu eða ekki kjósa ef gengið yrði til alþingiskosninga eru jafnframt sá hópur sem er líklegastur til að greiða Trump atkvæði.
Alls 30% þeirra myndu greiða Trump atkvæði og 70% myndu greiða Harris atkvæði.
Þar á eftir koma kjósendur Miðflokksins en 28% þeirra myndu greiða Trump atkvæði og 72% myndu greiða Harris atkvæði.
Alls myndu 21% kjósenda Sjálfstæðisflokksins greiða Trump atkvæði og 79% greiða Harris atkvæði.
Þá myndu 16% kjósenda Flokks fólksins greiða Trump atkvæði og 84% greiða Harris atkvæði.
Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda annarra stjórnmálaflokka styður þó Harris. Aðeins 3-4% kjósenda Framsóknarflokksins, Sósíalistaflokksins og Pírata segjast myndu kjósa Trump.
Þá sögðust allir kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna styðja Harris.