Ellert B. Schram hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík 11. nóvember.
"Það geri ég til að leggja hugsjón jafnaðarstefnunnar lið. Ég vil veg hennar sem mestan í næstu þingkosningum. Hófsama og heiðarlega jafnaðarstefnu. Frjálslynda, öfgalausa og manneskjulega. Þjóðin þarf á því að halda. Auk þess held ég að það skaði ekki að rödd reynslunnar og eldri kynslóðarinnar heyrist og hafi hlutverki að gegna.
Ég býð mig fram án þess að tiltaka eitthvert sérstakt númer í röðinni. Ég læt kjósendum eftir að kjósa mig í hvaða sæti sem er. Eða kjósa mig alls ekki. Það er hvort eð er á þeirra valdi," segir í fréttatilkynningu frá Ellert.