Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, hefur fengið flest atkvæði í 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi. Þegar 1500 atkvæði höfðu verið talin af 3032 greiddum atkvæðum hafði Kristján Þór fengið 876 atkvæði í 1. sæti, Arnbjörg Sveinsdóttir, alþingismaður á Seyðisfirði, hafði fengið 770 atkvæði í 1.-2. sæti og Þorvaldur Ingvarsson, læknir á Akureyri, 778 atkvæði í 1.-3. sæti en öll þrjú sóttust eftir 1. sæti. Sjálfstæðisflokkurinn fékk tvo þingmenn kjörna í síðustu alþingiskosningum.
„Lífið er dásamlegt. Þetta var frábært prófkjör og fyrstu tölur tölur eru mjög góðar," sagði Kristján Þór við mbl.is, eftir að tölurnar höfðu verið birtar í kvöld.
Arnbjörg Sveinsdóttir sagðist vera ánægð með þátttökuna í prófkjörinu en kjörsókn var 74%; og útlit væri fyrir að framboðslistinn yrði sterkur og góður. Um fyrstu tölur sagði hún: „Það var alltaf ljóst að þetta yrði þungur róður. Það var mikill stuðningur við bæjarstjóra Akureyringa því hann er mjög vinsæll og ég vissi alltaf að þetta yrði tvísýnt."
Kosið er í sex sæti í prófkjörinu. Flest atkvæði í 1.-4. sæti hafði Ólöf Nordal, framkvæmdastjóri á Egilsstöðum, fengið eða 985, Sigríður Ingvarsdóttir, verkefnisstjóri í Fjallabyggð, hafði fengið hlotið 861 atkvæði í 1.-5. sæti og Steinþór Þorsteinsson, háskólanemi á Akureyri, hafði 855 atkvæði í 1.-6. sæti.