Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, mun þiggja biðlaun sem hann á rétt á samkvæmt ráðningarsamningi er hann lætur af störfum þann 9. janúar nk. Segir hann á vef sínum að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn hafi gert þá kröfu að hann léti af störfum sem bæjarstjóri eftir að hann sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.
Kristján segir á vef sínum að biðlaun séu hluti af ráðningasamningi flestra ef ekki allra framkvæmdastjóra sveitarfélaga í landinu og ef einhver undantekning frá þeirri reglu kann að finnast þá sé honum ekki kunnugt um hana. Réttur til biðlauna er og hefur verið hluti ráðningasamnings bæjarstjórans á Akureyri í allmörg ár og víst er að fyrrverandi bæjarstjórar nutu biðlauna þegar þeir létu af störfum.
„Það að ég hætti störfum sem bæjarstjóri fyrr en samningurinn um meirihlutasamstarfið kveður á um, er sameiginleg ákvörðun meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar. Samstarfsflokkur okkar sjálfstæðismanna gerði þá kröfu að ég léti af starfi bæjarstjóra Akureyrar í kjölfar þess að ég hefði sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.
Samfylkingunni fannst það ekki ásættanlegt að ég gegndi starfi bæjarstjóra á sama tíma og ég leiddi lista sjálfstæðismanna í kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningarnar á komandi vori. Ég varð með öðrum orðum að afsala mér starfinu sem fyrst í kjölfar prófkjörsins svo meirihlutinn héldi í stað þess að gegna starfinu lengur.
Þegar ég nú hyggst láta af störfum, eftir tæp 9 ár í embætti á Akureyri, er rétt að árétta að samningur minn um kaup og kjör, og þar með talin biðlaun, byggir á samningi sem var undirritaður árið 1998 en framlengdur tvívegis, 2002 og 2006. Slíkur samningur var fyrst undirritaður á Akureyri fyrir meira en 20 árum og ég er síst að fá meira í minn hlut en forverar mínir í embætti eða aðrir einstaklingar sem gegnt hafa hliðstæðu embætti í öðrum lykilsveitarfélögum landsins.
Ég mun láta af embætti sem bæjarstjóri á Akureyri þann 9. janúar n.k. Ég hef uppfyllt öll ákvæði ráðningarsamnings míns og veit að vinnuveitandi minn Akureyrarbær mun gera slíkt hið sama gagnvart mér, eins og hann hefur undantekningalaust gert gagnvart forverum mínum í starfi svo og öllum öðrum starfsmönnum sínum sem rétt hafa átt til biðlauna."