Tíu þúsund fleiri kjósendur

Alls eru 221.368 kjósendur á kjörskrárstofnum vegna alþingiskosninganna 12. maí. 110.969 konur og 110.399 karlar. Eru konur því 570 eða 0,5% fleiri en karlar. Þessar upplýsingar koma fram í yfirliti Hagstofu Íslands yfir kjósendur á kjörskrárstofni sem kom út í gær.

Við seinustu alþingiskosningar, 10. maí 2003, voru 211.304 kjósendur á kjörskrá og nemur fjölgunin því 10.064 manns eða 4,8%.

8.793 kjósendur eru með lögheimili sitt erlendis

Heildarfjöldi kjósenda sem eru með lögheimili erlendis er nú 8.793 eða 4,0% kjósendatölunnar og hefur þeim fjölgað um 65 frá síðustu alþingiskosningum, eða um 0,7%. Kjósendum sem eru með lögheimili hér á landi hefur fjölgað um 9.999 eða 4,9%.

Þá kemur fram í upplýsingum Hagstofunnar að þeir sem vegna aldurs fá nú að kjósa í fyrsta sinn til Alþingis eru 17.132, eða 7,7% af kjósendatölunni.

Í Reykjavíkurkjördæmunum báðum eru nú 87.173 kjósendur á kjörskrá. Hefur þeim fjölgað um 1,9% frá seinustu kosningum.

Í Suðvesturkjördæmi eru þeir 54.584. Þar hefur fjölgunin hinsvegar orðið mun meiri, eða um 11,8% frá 2003.

Í Norðvesturkjördæmi eru kjósendur á kjörskrárstofni nú 21.126 og hefur fækkað um 0,6%. Í Norðausturkjördæmi eru þeir 27.888 og fjölgaði um 2,2% og í Suðurkjördæmi 30.597 og hefur þeim fjölgað um 7,9%.

Skv. upplýsingum Hagstofunnar semja sveitarstjórnir kjörskrár eftir kjörskrárstofnum sem Þjóðskrá lætur þeim í té. Í endanlegri tölu kjósenda á kjörskrá, sem birt verður í skýrslu Hagstofunnar um kosningarnar, verður svo tekið tillit til tölu látinna og þeirra sem fá nýtt ríkisfang eftir að kjörskrárstofnar voru unnir, svo og breytinga sem verða á kjörskrá vegna leiðréttinga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka