Af þeim 18 fyrirtækjum, sem veittu Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni styrki að fjárhæð 1 milljón eða meira árið 2006, er yfir helmingur í greiðslustöðvun eða á við mikla fjárhagserfiðleika að etja.
Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa birt lista yfir þau fyrirtæki, sem veittu flokkunum hæstu styrkina á árinu 2006. Gömlu bankarnir þrír, Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing, voru örlátir við flokkana og Landsbankinn veitti Sjálfstæðisflokknum m.a. samtals 30 milljónir í styrk. Allir gömlu bankarnir eru nú í greiðslustöðvun og undir stjórn skilanefndar. Það sama er að segja um Straum-Burðarás SPRON, Teymi og FL Group, nú Stoðir en síðastnefnda félagið veitti Sjálfstæðisflokki 30 milljóna króna styrk þetta ár.
Baugur Group hefur verið tekinn til gjaldþrotaskipta en félagið veitti Samfylkingunni 3 milljóna króna styrk árið 2006. Exista, sem styrkti Sjálfstæðisflokkinn um 3 milljónir, Eimskip, sem styrkti Samfylkingu um 1 milljón, Milestone, sem veitti Samfylkingunni 1,5 milljóna króna styrk, og Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga, nú Eignarhaldsfélagið Gift, sem veitti Samfylkingunni 1 milljón, eru í miklum rekstrarerfiðleikum.
Listi yfir fyrirtæki sem styrktu Sjálfstæðisflokk um 1 milljón eða meira árið 2006:
Exista 3 milljónir
FL-Group 30 milljónir
Glitnir banki 5 milljónir
KB-banki 4 milljónir
Landsbanki Íslands 5 milljónir
Landsbanki Íslands 25 milljónir
MP-Fjárfestingarbanki 2 milljónir
Straumur-Burðarás 2,5 milljónir
Tryggingamiðstöðin 2 milljónir
Þorbjörn 2,4 milljónir
Listi yfir fyrirtæki sem styrktu Samfylkingu um yfir 500 þúsund krónur árið 2006:
Actavis 3 milljónir
Baugur Group 3 milljónir
Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga 1 milljón
Eimskipafélag Íslands 1 milljón
Exista 3 milljónir
Eykt 1 milljón
FL-Group 3 milljónir
Glitnir 3,5 milljónir
Kaupþing 5 milljónir
Ker 3 milljónir
Landsbanki Íslands 4 milljónir
Milestone 1,5 milljónir
SPRON 1 milljón
Straumur Burðarás 1,5 milljónir
Teymi 1,5 milljónir.