L-listinn, listi fólksins, vinnur stórsigur í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri á laugardag og fær fimm bæjarfulltrúa af ellefu, samkvæmt könnun Capacent Gallup fyrir Vikudag. Frá þessu er greint á vefsíðu blaðsins.
Ekki þurfa að verða miklar breytingar til að L-listinn bæti við sig sjötta bæjarfulltrúanum og næði þar með hreinum meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar. Öll hin framboðin fimm tapa fylgi nú frá síðustu könnun.
Samkvæmt þessari nýju könnun fær L-listinn 39,3% fylgi en í sambærilegri könnun sem birtist í Vikudegi í síðustu viku, listinn með 24,4% fylgi og þrjá bæjarfulltrúa. Í kosningunum 2006 fékk listinn tæplega 10% atkvæða og einn bæjarfulltrúa.
Öll hin framboðin fimm tapa fylgi nú frá síðustu könnun, Vinstri grænir hlutfallslega mest, eða tæpum 5 prósentustigum. Sjálfstæðisflokkurinn fær 14,2%, samkvæmt þessari nýju könnun og tvo bæjarfulltrúa en önnur framboð fá einn bæjarfulltrúa hvert. Framsóknarflokkurinn fær 13% fylgi, Vinstri grænir 12,6%, Samfylkingin 11,2% og Bæjarlistinn 9,7%.
Margir eru enn óákveðnir eða neituðu að svara í könnuninni, skv. frétt Vikudags. Könnunin var framkvæmd dagana 20.-26. maí sl.
Mikill meirihluti vill ópólitískan bæjarstjóra
Í Vikudegi í dag er einnig birt niðurstaða könnunar Capacent Gallup fyrir blaðið þar sem fram kemur að mikill meirihluti Akureyringa vill að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri á næsta kjörtímabili. Af þeim sem tóku afstöðu eru 82,6% þeirrar skoðunar - en aðeins 17,4% vildu ráða pólitískan bæjarstjóra.
Þrír bæjarstjórar hafa setið á kjörtímabilinu sem er að ljúka; fyrstur sjálfstæðismaðurinn Kristján Þór Júlíusson, þá flokkssystir hans Sigrún Björk Jakobsdóttir og loks Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar, sem nú gegnir embættinu. Þessir tveir flokkar hafa myndað meirihluta síðustu fjögur ár.
L-listi fólksins hefur lengi haft það á stefnuskrá að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri á Akureyri.