„Ekki oft orðlaus - en er það núna“

Fyrstu tölur lesnar upp. Geir Kristinn Aðalsteinsson fyrir miðju. Til …
Fyrstu tölur lesnar upp. Geir Kristinn Aðalsteinsson fyrir miðju. Til vinstri er Oddur Helgi Halldórsson og lengst til hægri Halla Björk Reynisdóttir nýr bæjarfulltrúi L-listans sem skipaði þriðja sætið. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er alveg með ólíkindum. Ég hef ekki oft orðið orðlaus á ævinni - en ég er það núna,“ sagði Geir Kristinn Aðalsteinsson, oddviti L-listans, lista fólksins við Fréttavef Morgunblaðsins, eftir að fyrstu tölur voru birtar á Akureyri í kvöld. Listinn fékk hvorki meira né minna en 46% og hreinan meirihluta, 6 bæjarfulltrúa, ef niðurstaðan verður þessi.

Samkvæmt skoðanakönnun bæjarblaðsins Vikudags í vikunni átti L-listinn að fá tæp 40% og 5 bæjarfulltrúa. „Ég átti satt best að segja ekki von á að við næðum því, en við erum að gera gott betur sýnist mér. Þetta er með hreinum ólíkindum,“ sagði Geir en tölurnar komu honum bersýnilega í opna skjöldu eins og oddvitum annarra framboða í bænum.

Geir segist hafa fundið fyrir miklum meðbyr í bænum upp á síðkastið. Töluvert sé talað um „Besta flokks-fylgi“, auðvitað spili aðstæður í þjóðfélaginu inn í, „en við kjósum að horfa frekar á það góða sem við höfum gert. Það er stór hópur frábærs fólks að vinna fyrir listann og við erum að uppskera eins og við höfum sáð til. Það er og mikill heiður að fá að leiða þennan hóp.“

Geir er nýliði í pólitík. Spurður um tilfinninguna að fá svo gríðarlegt fylgi í fyrstu tilraun, segir hann: „Ég er kominn á kaf í djúpu laugina og það er mjög spennandi verkefni. Ég hlakka mikið til og mun reyna að standa undir væntingum kjósenda.“

Oddur Helgi Halldórsson, stofnandi og bæjarfulltrúi L-listans, faðmar Sigrúnu Björk …
Oddur Helgi Halldórsson, stofnandi og bæjarfulltrúi L-listans, faðmar Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, eftir að fyrstu tölur voru birtar í kvöld. Nýr oddviti L-listans, Geir Kristinn Aðalsteinsson, er til hægri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert