Einfaldara að nýta sér réttindi milli landa

Breytingin einfaldar einstaklingum verulega að nýta sér réttindi á milli …
Breytingin einfaldar einstaklingum verulega að nýta sér réttindi á milli landa. mbl.is/Golli

Hinn 1. júní sl. tók gildi ný EB reglugerð nr. 883/2004 um framkvæmd almannatrygginga á EES svæðinu. Reglugerðin felur í sér breytingu á tryggingaréttindum á milli landa innan EES þar sem reglur um jafnræði tryggðra einstaklinga, samlagning tryggingatímabila og greiðslur bóta á milli landa eru styrktar.

Breytingin einfaldar einstaklingum verulega að nýta sér réttindi á milli landa, segir í frétt frá Sjúkratryggingum. Ekki þarf lengur að fá útgefin skjöl um réttindi sín áður en t.d. flutt er búferlum. Þess í stað eiga einstaklingar rétt á því að stofnun í því landi sem flutt er til sjái um að afla allra upplýsinga um hugsanlegan rétt viðkomandi.

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) munu sjá um samskipti vegna sjúkratryggingaréttinda. Samskipti milli SÍ og erlendra stofnana verða alfarið með stöðluðum skjölum, svokölluðum SED (Structured Electronic Documents). Kostir þess að hafa stöðluð samskiptaskjöl og að samskipti milli stofnana séu í fyrirfram ákveðnum farvegi eru einkum þeir að komast má hjá tungumálaörðugleikum, upplýsingaöflun verður markvissari og málsmeðferðartími ætti að styttast.

Útgáfa vottorða breytist

Útgáfu E-vottorða verður hætt en þess í stað geta einstaklingar eftir atvikum átt rétt á að fá afhent svokölluð Portable documents (PD), en SÍ munu sjá um útgáfu á eftirfarandi skjölum:

  • PD S1 - Skráning tryggingaréttinda sem einstaklingur nýtur í öðru aðildarríki en búseturíki. (Sambærilegt við E-106, E-109, og E-121.)
  • PD S2 - Staðfesting á rétti til fyrirfram ákveðinnar meðferðar í öðru aðildarríki. (Sambærilegt við E-112.)
  • PD S3 - Fyrirfram ákveðin læknisfræðileg meðferð einstaklings eða aðstandenda hans, sem áður stundaði vinnu yfir landamæri.

Þó svo að útgáfu á svokölluðum E-vottorðum sé lokið hér á landi mun SÍ áfram taka við E-vottorðum útgefnum af erlendum stofnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert