Kvíðir því alltaf að fara á kjörstað

Freyja Haraldsdóttir
Freyja Haraldsdóttir

„Ég er hreyfihömluð og þarf aðstoð í kjörklefanum við að greiða atkvæði mitt. Ég kvíði því alltaf að fara á kjörstað nákvæmlega vegna þess að mér leyfist ekki að hafa mínar aðstoðarkonur.“ Þetta segir Freyja Haraldsdóttir sem telur að með þessu sé brotið á friðhelgi einkalífs síns.

Freyja, sem er bæði fyrrverandi fulltrúi stjórnlagaráðs og núverandi framkvæmdastýra NPA-miðstöðvarinnar, sem er samvinnufélag fatlaðs fólks um sjálfstætt líf, sendi mbl.is bréf vegna frétta þess efnis að innanríkisráðuneytið hafi hafnað kröfu Blindrafélagsins um að blindum verði heimilt að kjósa í einrúmi með aðstoð fulltrúa að eigin vali í yfirstandandi forsetakosningum.

Ráðuneytið hafnaði kröfunni á þeim grundvelli að lög stæðu í vegi fyrir því að framkvæma mætti kosningarnar með þeim hætti sem Blindrafélagið legði til.

Réttur minn hlýtur að vera brotinn

Freyja segir að hún ráði til starfa aðstoðarkonur sem skrifi undir þagnarskyldu í vottaðri viðurvist hennar til þess að greiða atkvæði. „Fulltrúi kjörstjórnar í mínu tilfelli er stundum konan á bókasafninu eða gamli kennarinn minn. Réttur minn til einkalífs hlýtur þar með að vera brotinn.“

Hún segir að umræðan um þetta málið þurfi að vera vönduð en um leið hávær. „Kosningarétturinn er hornsteinn lýðræðis og hlýtur því að teljast óeðlilegt í lýðræðisríki að fólk sem ekki getur kosið án aðstoðar geti ekki valið hver veitir þá aðstoð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert