Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vonar að nú á síðustu dögum hafi kjósendur áttað sig á því hvers vegna það skiptir máli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
„Samkvæmt skoðanakönnunum er Áslaug Friðriksdóttir, sem stendur einmitt fyrir þessi frjálslyndu gildi Sjálfstæðisflokksins og er öflugur fulltrúi, tæp á því að komast inn í borgarstjórnina. Þess vegna vonast ég til að stefnumálin okkar hafi komist til skila og að við fáum Áslaugu inn. Það er mjög mikilvægt,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Áslaug situr í fjórða sæti á lista flokksins í Reykjavík. Samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið er Sjálfstæðisflokkurin næststærsti flokkurinn, en fylgi hans hefur minnkað lítillega frá síðustu könnun.
Það er nú 20,9% sem gefur þrjá borgarfulltrúa. Í kosningunum fyrir fjórum árum fékk flokkurinn 33,6% atkvæða og fimm borgarfulltrúa.
Halldór kaus í Laugardalshöllinni nú í morgun.
Hann segir að dagurinn leggist ágætlega í sig. „Þó svo að það sé frasi, þá er hann sannur. Það eru forréttindi að geta mætt á kjörstað og haft áhrif með atkvæði sínu.“
Aðspurður segir hann að kosningabaráttan hafi þróast með öðrum hætti en hann hafði upphaflega átt von á. „Maður á nú reyndar alltaf von á því að eitthvað komi upp í umræðunni. Það gerði það og það er vont að því leyti að þá yfirskyggir það öll stefnumál og umræðan fer að snúast um eitthvað eitt tiltekið mál. Svo þegar búið er að kjósa, þá áttar fólk sig kannski á því að það hefði átt að velta stefnumálunum meira fyrir sér,“ nefnir Halldór.
Umræðan hafi því mátt snúast meira um sjálf stefnumál flokkanna.
„Síðan er það þannig að þó svo að við frambjóðendurnir höfum verið á fundum um alla borgina síðustu mánuði, þá fara kjósendur almennt séð ekki í gírinn fyrr en hálfum mánuði, jafnvel viku, fyrir kjördag,“ segir hann og bætir við:
„Ég fer bjartsýnn og hnarreistur inn í daginn - glaður á kjördegi.