Guðmundur Franklín Jónsson hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Guðmundur Franklín er fyrrverandi formaður Hægri grænna en stýrir nú rekstri Hotel & Café Klippen í Danmörku.
„Kæru Íslendingar.
Eftir því sem ég hef elst og þroskast, því betur geri ég mér grein fyrir hvað ég er heppinn að vera Íslendingur og þakklátur fyrir þau forréttindi að hafa fæðst og alist upp í þessu fallega landi okkar.
Í ljósi þessa ætla ég að bjóða fram krafta mína og hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti til forseta Íslands með þá einlægu von í hjarta, að geta þjónað fólkinu í landinu af auðmýkt og heiðarleika,“ segir í tilkynningu frá forsetaframbjóðandanum Guðmundi Franklín en með honum og Hrannari Péturssyni eru alls tólf búnir að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.
Guðmundur starfaði á Wall Street á sínum tíma en þegar hann flutti aftur til Íslands stofnaði hann Hægri græna, sem buðu fram í síðustu þingkosningunum. Guðmundur ætlaði að leiða flokkinn í Suðvesturkjördæmi en það kom í ljós að hann var ekki kjörgengur.
Fyrir ári hóf hann undirskriftasöfnum til stuðnings því að Ólafur Ragnar yrði áfram forseti Íslands.