Eftirlaunin myndu dragast frá

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra,
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Eftirlaun Davíðs Oddsonar forsetaframbjóðanda og ritstjóra Morgunblaðsins kæmu til frádráttar launa hans sem forseta Íslands næði hann kjöri. Þrátt fyrir það myndi hann afsala sér um 1,4 milljónum í laun á mánuði. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Er vitnað í eftirlaunalögin svokölluðu sem sett voru árið 2003, í forsætisráðherratíð Davíðs. Þar er kveðið á um hækkun eftirlauna m.a. forseta og ráðherra og kemur þar fram sérstakt ákvæði um eftirlaun forsætisráðherra. Segir í sjöttu grein lagana að sá sem gegnir embætti forsætisráðherra í ár eða meira eigi rétt á eftirlaunum með sama hlutfalli og forseti.

Launin voru afnumin árið 2009 og þá jafnframt lögfest ákvæði varðandi áhrif starfa samhliða eftirlaunatöku. Gegnir sá sem fær greidd laun samkvæmt eftirlaunalögum starfi á vegum ríkisins skuli launagreiðslur koma til fullu frádráttar eftirlaununum. Samkvæmt frétt Stöðvar tvö þýðir það að eftirlaunin dragist frá forsetalaununum.

Í þriðju grein segir:

Nú gegnir sá sem fær greidd eftirlaun samkvæmt lögum nr. 141/2003, eða samkvæmt eldri lögum er giltu um eftirlaun alþingismanna og ráðherra fyrir 30. desember 2003, starfi á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess, og koma þá launagreiðslur fyrir það starf að fullu til frádráttar eftirlaunum.“

Davíð sagði í viðtali í sjónvarpsþættinum Eyjunni á sunnudaginn ekki ætla að þiggja forsetalaun verði hann kjörinn forseti.

„Ég vil draga úr pjatti og þess hátt­ar. Færa for­set­ann heim og gefa fólk­inu aðgang að Bessa­stöðum. Þá held ég að það sé ekki við hæfi að hafa 2,5 millj­ón­ir á mánuði í laun,“ sagði Davíð. Sagði hann jafnframt það við hæfi að þjóðin fengi hann frítt.

Í fréttum Stöðvar tvö segir að nái Davíð kjöri muni hann ekki eiga rétt á fullum forsetalaunum. Kemur þar fram að laun forseta séu rúmlega 2,3 milljónir á mánuði og að Davíð fái 900.000 krónur í eftirlaun á mánuði. Samkvæmt niðurstöðu fréttamanns Stöðvar tvö ætti hann þá rétt á um 1,4 milljón króna í laun á mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert