Eftirlaun Davíðs Oddsonar forsetaframbjóðanda og ritstjóra Morgunblaðsins kæmu til frádráttar launa hans sem forseta Íslands næði hann kjöri. Þrátt fyrir það myndi hann afsala sér um 1,4 milljónum í laun á mánuði. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar tvö.
Er vitnað í eftirlaunalögin svokölluðu sem sett voru árið 2003, í forsætisráðherratíð Davíðs. Þar er kveðið á um hækkun eftirlauna m.a. forseta og ráðherra og kemur þar fram sérstakt ákvæði um eftirlaun forsætisráðherra. Segir í sjöttu grein lagana að sá sem gegnir embætti forsætisráðherra í ár eða meira eigi rétt á eftirlaunum með sama hlutfalli og forseti.
Launin voru afnumin árið 2009 og þá jafnframt lögfest ákvæði varðandi áhrif starfa samhliða eftirlaunatöku. Gegnir sá sem fær greidd laun samkvæmt eftirlaunalögum starfi á vegum ríkisins skuli launagreiðslur koma til fullu frádráttar eftirlaununum. Samkvæmt frétt Stöðvar tvö þýðir það að eftirlaunin dragist frá forsetalaununum.
Í þriðju grein segir:
„Nú gegnir sá sem fær greidd eftirlaun samkvæmt lögum nr. 141/2003, eða samkvæmt eldri lögum er giltu um eftirlaun alþingismanna og ráðherra fyrir 30. desember 2003, starfi á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess, og koma þá launagreiðslur fyrir það starf að fullu til frádráttar eftirlaunum.“
Davíð sagði í viðtali í sjónvarpsþættinum Eyjunni á sunnudaginn ekki ætla að þiggja forsetalaun verði hann kjörinn forseti.
„Ég vil draga úr pjatti og þess háttar. Færa forsetann heim og gefa fólkinu aðgang að Bessastöðum. Þá held ég að það sé ekki við hæfi að hafa 2,5 milljónir á mánuði í laun,“ sagði Davíð. Sagði hann jafnframt það við hæfi að þjóðin fengi hann frítt.
Í fréttum Stöðvar tvö segir að nái Davíð kjöri muni hann ekki eiga rétt á fullum forsetalaunum. Kemur þar fram að laun forseta séu rúmlega 2,3 milljónir á mánuði og að Davíð fái 900.000 krónur í eftirlaun á mánuði. Samkvæmt niðurstöðu fréttamanns Stöðvar tvö ætti hann þá rétt á um 1,4 milljón króna í laun á mánuði.