„Ef þær létu sig hafa það“

Guðrún Margrét Pálsdóttir.
Guðrún Margrét Pálsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Margrét Pálsdóttir segist koma til með að vísa nýju frumvarpi, sem rýmkar réttinn til fóstureyðinga, til þjóðarinnar verði hún kjörin forseti.

Guðrún var innt eftir áliti sínu á fóstureyðingum og hjónabandi samkynhneigðra í kappræðum RÚV í kvöld. Guðrún hefur tvinnað framboð sitt trú sinni á guði og m.a. sagt að hennar fyrsta verk í embætti yrði að opna Bessastaðakirkju þar sem hún myndi halda úti bænastund fyrir þjóðina.

Guðrún sagðist ekki setja sig upp á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Hún átti sýnilega erfitt með svarið, og viðurkenndi það sjálf þegar á það var minnst. „Af virðingu við guðs orð er spurning hvort það ætti að vera í kirkju,“ sagði Guðrún og bætti hugsi við „en kirkjan er að sjálfsögðu búin að samþykkja það.“

Því næst var hún spurð um fóstureyðingar og fyrrnefnt lagafrumvarp sem mun veita meira frelsi í þeim efnum.

„Ég hugsa að ég myndi senda þau í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Guðrún. „Það er okkar hlutverk að vernda lífið og það er ekkert um það í stjórnarskránni sem slíkri en í þessum drögum sem eru að nýrri stjórnarskrá er talað um meðfæddan rétt til lífs....“

Guðrún Margrét var í seinna holli frambjóðenda í kappræðum RÚV.
Guðrún Margrét var í seinna holli frambjóðenda í kappræðum RÚV. Skjáskot/ RÚV

Guðrún hafði ekki lokið sér af þegar annar forsetaframbjóðandi, Elísabet Jökulsdóttir, greip inn í og sagði konur eiga meðfæddan rétt til lífs og því væri eðlilegast að þær fengju að ráða sínum lífum sjálfar.

 „Ég sé barn eða fóstur sem sjálfstætt líf sem okkur beri að vernda,“ svaraði Guðrún. Hún kvaðst ekki andsnúin fóstureyðingum stefni barnsburður lífi móður í hættu eða ef „aðstæður eru hræðilegar“.

Sagði hún fóstureyðingar ekki alltaf af hinu góða. Konur gætu séð eftir þeim allt lífið og setið uppi með hnút í maganum en að „ef þær létu sig hafa það“ að eignast börnin gætu þær búið að þeim út lífið.

Þá greip Elísabet aftur orðið:

Elísabet: Hefur þú farið í fóstureyðingu?

Guðrún: Nei.

Elísabet: Myndir þú fara í fóstureyðingu?

Guðrún: Nei ég myndi aldrei gera það.

Þar með lauk þeirri umræðu í kappræðunum, en notendur Twitter tóku við. Hér að neðan fylgja nokkur dæmi.






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert