„Enginn glæpur hefur verið framinn hér“

Úr sjónvarpssal fyrr í kvöld
Úr sjónvarpssal fyrr í kvöld mbl.is/ Árni Sæberg

Davíð Oddsson sagði Guðna Th. Jóhannesson vera „frambjóðanda Ríkissjónvarpsins“ í kappræðum forsetaefna á RÚV í kvöld. Skipaði hann sér þar með í hóp með frambjóðendunum Ástþóri Magnússyni og Hildi Þórðardóttur sem bæði hafa látið áþekk ummæli falla.

Þættinum var skipt í tvennt. Í fyrri hluta hans mættust þeir fjórir frambjóðendur sem mælast efstir í skoðanakönnunum, Guðni Th. Jóhannesson, Halla Tómasdóttir, Davíð Oddsson og Andri Snær Magnason.

Davíð sagði Guðna sjálfan hafa viðurkennt að hafa ákveðið að fara í framboð strax um áramótin. Vitnaði Davíð þar í Óðin Jónsson, umsjónarmann Morgunútvarpsins á samtengdum rásum RÚV, og sagði þessar upplýsingar jafnvel hafa komið fram á heimasíðu Guðna. Sagði hann Guðna því hafa verið búinn að taka ákvörðun um forsetaframboð sitt þegar hann kom í sjónvarpssal sem álitsgjafi í Wintris-málinu.

Þessu hafnaði Guðni alfarið. Sagði hann að þegar Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um áramót að hann hygðist ekki gefa kost á sér hefði hafist „sá ágæti samkvæmisleikur“ að máta fólk við embættið. Þar hefði hans nafn verið nefnt og því neitaði hann ekki.

Hann hefði þó ekki verið búinn að ákveða að fara í framboð á þeim tíma og hefði raunar hreint ekki viljað það í fyrstu.

„Ég gat ekki ímyndað mér að þessi Wintris-leikur myndi þróast eins og raun ber vitni,“ sagði Guðni. Hann lýsti því sem svo að hans hefðu beðið hátt í 10 skilaboð um að koma í sjónvarpssal eftir að hann hafði verið við kennslu. Eftir komu sína í sjónvarpssal hefði komið upp bylgja áskorana og þá hefði hann hugsað sinn gang.

„Þá valdi ég frekar en öryggi vanans að taka áskoruninni,“ sagði Guðni og var nokkuð niðri fyrir.

„Enginn glæpur hefur verið framinn hér, gott fólk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert