Þarf styrk á Bessastaði vegna veiks Alþingis

Þau Andri, Davíð, Guðni og Halla voru í fyrra holli …
Þau Andri, Davíð, Guðni og Halla voru í fyrra holli frambjóðenda sökum fylgis. mbl.is/Árni Sæberg

Brexit undirstrikar þörfina á því að á Bessastöðum sé haldgóð stjórn, enda lítur ekki út fyrir að sterk ríkisstjórn taki hér við að loknum alþingiskosningum í haust.

Þetta sagði forsetaframbjóðandinn Davíð Oddsson í kappræðum kvöldsins á RÚV í svari við spurningu til forsetaframbjóðendanna um áhrif útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu á Ísland.

Þeir fjórir forsetaframbjóðendur sem njóta mest fylgis, Guðni Th. Jóhannesson, Halla Tómasdóttir, Andri Snær Magnason og Davíð Oddsson, sögðust öll sjá tækifæri fyrir Ísland í Brexit. Andri kvaðst þó hafa ákveðnar áhyggjur.

 Þjóðaratkvæði til eftirbreytni

„Þar fékk þjóðin að ráða, í þessu stóra máli og það ætti að vera okkur til eftirbreytni,“ sagði Guðni.

Sagði hann að Brexit gæti breytt miklu til betri vegar fyrir Íslendinga og að nú væru í augsýn aukin tækifæri til þess að rýna í framtíðina og velja aðrar leiðir en áður voru í boði.

„Fyrir Brexit getum við sagt að málið hafi snúist um annars vegar það að vera þar sem við erum eða hugsanlega leita eftir aðild,“ sagði hann. „Til dæmis aukin samvinna á Norður-Atlantshafi, til dæmis aukin samvinna við Norður-Ameríku, hugsanlegur vöxtur og viðgangur EFTA [...] þar sem Bretar voru á sinni tíð. Kannski vilja þeir fara þangað inn.“

Sagði Guðni þannig ýmislegt í deiglunni en að allt skapaði það tækifæri fremur en ógnir.

Áður en kveikt var á myndavélunum var sviðið sópað.
Áður en kveikt var á myndavélunum var sviðið sópað. mbl.is/Árni Sæberg

Hræðsluáróður á við Icesave

Davíð Oddsson var einnig ánægður með lokaniðurstöðuna en sagði sláandi hræðsluáróðri hafa verið beitt í baráttunni gegn útgöngu Evrópusambandsins. Sagði hann eins hræðsluáróður hafa átt sér stað vegna Icesave-samninganna á sínum tíma.

„Það voru allar stofnanir, allir fræðingar, 1.000 hagfræðingar sem komu og sögðu þetta yrði hryllilegt fyrir Bretland,“ sagði Davíð. „Þjóðin lét samt ekki bugast og fór ekki eftir sérfræðingunum frekar en í Icesave, sem hótuðu að við myndum breytast í Norður-Kóreu. Það er afskaplega gott að breska þjóðin tók þessa afstöðu.“

Davíð sagðist þó viss um að þetta skapaði óróleika um hríð og að Evrópusambandið væri í uppnámi. Í framhaldinu muni það þó fara vel.

„En þetta segir okkur líka það að það er mjög þýðingarmikið að Ísland kunni að bregðast við þessum aðstæðum. Við erum að fara í þingkosningar í haust, það lítur ekki þannig út að menn fái sterka stjórn út úr þeim kosningum og ég tel þannig að þetta undirstriki það að á Bessastöðum verði að vera haldgóð stjórn þegar svona miklir atburðir geta gerst. Það er mikil óvissa sem þessu fylgir.“

Nánu samstarfi haldið áfram

Áður en áfram var haldið umræðu um Brexit var Davíð inntur eftir því hvort hann myndi ganga fram hjá utanríkisráðherra og Alþingi og reka sjálfstæða utanríkismálastefnu í ljósi þess að hann leitaði ekki álits utanríkismálanefndar þingsins hvað varðaði Íraksstríðið árið 2003.

Davíð sagði það tiltekna atvik hafa verið afgreitt í kosningum mánuði síðar. Þarna hafi eingöngu verið um pólitíska ákvörðun að ræða eftir að sjálf ákvörðunin um stríð hafi verið tekin.

„Ég þekki það mjög vel bæði sem [fyrrum] forsætisráðherra og utanríkisráðherra að forseti og utanríkisráðherra eiga mjög náið og gott samstarf og því verður að sjálfsögðu haldið áfram.“

Hefur ákveðnar áhyggjur

Andri var því næst spurður um álit sitt á Brexit og sagðist hann hafa ákveðnar áhyggjur þar sem óvíst væri hvaða „dómínó-áhrif“ það hefði og hvaða öfl myndu leysast úr læðingi.

„Ég hef alltaf verið á því að Ísland eigi almennt að tala vel um Evrópu. Að það sé okkar stærsta gæfa að hafa lifað friðartíma í Evrópu síðustu sjötíu ár.“

Sagði hann mikilvægt að Evrópa standi saman og að sundurlyndisöfl yrðu ekki það róttæk eða herská að Evrópa myndi vígbúast. Hann sagði Brexit þó vissulega geta verið jákvætt og leitt af sér aukið norrænt samstarf.

„Forseti Íslands á síðustu árum hefur verið frekar neikvæður gagnvart Evrópu, frekar en jákvæður, og þá erum við ekki að tala um hvort við eigum að ganga í sambandið eða ekki, sem ég hef verið á báðum áttum með, en hins vegar á forsetinn að tala jákvætt og tala upp samvinnu Evrópu fremur en að vera í meiri samskiptum við öfl sem hafa kannski ekki sömu grundvallargildi í mannréttindum eins og við.“

Davíð skaut þá inn þeirri leiðréttingu að það hefðu ekki verið friðartímar í Evrópu síðustu 70 ár enda væri Andri að gleyma þar stríðinu í Júgóslavíu. Sagði hann einnig að Ólafur Ragnar, líkt og hann sjálfur, væri ekki á móti Evrópu þótt hann væri á móti Evrópusambandinu.

Ætlaði Einar Þorsteinsson, annar umsjónarmanna þáttarins, þá að færa umræðuna á aðrar slóðir en Sigríður Hagalín Björnsdóttir, hinn umsjónarmaðurinn, stoppaði hann af.

Frambjóðendurnir fyrir kappræður kvöldsins.
Frambjóðendurnir fyrir kappræður kvöldsins. mbl.is/Árni Sæberg

Með aðra löppina úti

„Það er auðvelt að gleyma konunni,“ sagði Halla, sem Einar hafði gleymt, en vatt sér síðan í svar sitt við spurningunni um Ísland og Brexit.

„Ég er þeirrar skoðunar að til skamms tíma skapi þetta ákveðinn óróa og ótta en til lengri tíma litið vona ég að þetta leysi þá staðreynd að það hefur ekki verið samstaða og vona að þetta leiði til þess að Evrópa geti farið í gegnum sín mál og annaðhvort tekið þá þéttara samstarf þjóða sem í raun standa saman, því Bretar voru alltaf með aðra löppina út úr Evrópusambandinu og hina löppina inni.“

Sagðist Halla telja áhugavert í þessum aðstæðum að taka samtal um samstarf Íslands á alþjóðavettvangi og hvernig það eigi að vera. Hún hafi sjálf alltaf verið þeirrar skoðunar að Ísland eigi að horfa til nágrannaþjóðanna og geti átt enn öflugra samstarf við önnur ríki Norðurlandanna.

„Ég held að forseti Íslands geti beitt sér fyrir því að við eigum sem best samstarf sem víðast,“ sagði Halla. „Forseti á að beita sér fyrir því að við sem þjóð eigum samtalið um hvaða stöðu við eigum að taka í samfélagi þjóða og ég myndi sjá fyrir mér til dæmis samtal á einhvers konar þjóðfundi um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert