„Framar öllu vil ég vera forseti allra“

mbl.is/Eggert

Guðni Th. Jóhannesson segir margar áskoranir og verkefni bíða sín sem forseta Íslands. Hann verður settur í embætti byrjun ágúst samkvæmt venju og hefð og segist Guðni ætla að nýta tímann þangað til til þess að búa sig undir að gegna þessu mikilvæga embætti.

„Til dæmis göngum við nær örugglega til alþingiskosninga í haust. Þar gæti falist í sá vandi og vegsemd fyrir þingmenn og væntanlega forseta líka að koma saman ríkisstjórn,“ sagði Guðni Th. í samtali við mbl.is á kosningavöku hans upp úr klukkan eitt í nótt.

Guðni segist vilja halda áfram að tala við fólk, læra af fólki og sjá hvernig hann geti komið góðum málum til leiðar. „Stutt við það góða starf sem er unnið hér á landi. Þar get ég lært af mörgum, framar öllu vil ég vera forseti allra,“ segir Guðni. „Hitta fólk, hlusta á það, heyra hvað brennur á fólki og í framhaldi af því leggja mitt vog á lóðarskálarnar og gera þannig landið okkar ögn betra í dag en það var í gær.“

Djúpt snortinn og staðráðinn í að gera sitt besta fyrir land og þjóð

Spurður út í fylgið segist Guðni vera fullkomlega sáttur við að ná kjöri miðað við tölurnar eins og þær eru núna. „Það var það sem ég stefndi að. Ég er djúpt snortinn og staðráðinn í að gera mitt besta fyrir land og þjóð,“ segir Guðni.

Guðna Th. Jóhannessyni var fagnað innilega af stuðningsmönnum hans á …
Guðna Th. Jóhannessyni var fagnað innilega af stuðningsmönnum hans á Grand Hóteli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. fékk minna upp úr kjörkössunum en skoðanakannanir gáfu til kynna. „Með fylgið og skoðanakannanirnar,“ segir Guðni. „Það er eitthvað sem skiptir ekki máli til lengri tíma litið en gerði mann ögn stressaðan í sjónvarpssal,“ segir Guðni Th. sem gaf sér góðan tíma í kvöld til þess að þakka öllum stuðningsmönnum sínum í sigurpartíinu innilega fyrir stuðninginn með handaböndum, myndatökum og faðmlögum.

„Halla Tómasdóttir sýndi hvað í henni býr,“ segir Guðni og víkur máli sínu að mótframbjóðendunum. „Davíð Oddsson tók úrslitunum af stakri reisn, Andri Snær líka, báðir kímnir eins og þeir tveir geta,“ segir Guðni en áréttar að allir frambjóðendur hafi verið frambærilegir, hver á sinn hátt, en hann nefndi þau þrjú sérstaklega þar sem þau voru honum ofarlega í huga eftir að vera með þeim í sjónvarpsstúdíói fyrr í kvöld.

Á leiðinni til Frakklands

Guðni Th. fór úr sigurpartíinu sínu upp úr hálftvö í kvöld enda bíður hans langur dagur á morgun. „Dagurinn hefst á því að fjölmiðlamenn koma til mín, svo taka við viðtalsþættir í útvarpi og sjónvarpi. Eftir hádegi gefst vonandi smá stund milli stríða áður en fólk kemur heim til okkar Elizu og fjölskyldunnar og fagnar þessum áfanga í lífi okkar,“ segir Guðni Th. og bætir við: 

„Svo pökkum við í tösku og fljúgum til Nice í Frakklandi að horfa á strákana okkar,“ segir hann.

Fyrir kosningarnar hafði Guðni Th. grínast með það að hann gæti vonandi fengið miða á landsleik Íslands og Englands yrði hann kjörinn forseti. Spurður út í það hvort kosningaúrslitin hafi orðið til þess að hann hafi fengið miða á völlinn brosir hann og segir að blessunarlega hafi góður vinur hans verið búinn að útvega sér miða. „Og leyfði mér að njóta þeirrar framsýni, ég þurfti ekki að hringja í KSÍ sjálfur,“ segir Guðni Th. léttur í bragði.

Guðni Th. Jóhannesson smellti kossi á eiginkonu sína, Elizu Reid, …
Guðni Th. Jóhannesson smellti kossi á eiginkonu sína, Elizu Reid, en hann fagnar nú 48 ára afmæli. mbl.is/Eggert
Stuðningsmenn Guðna voru hressir.
Stuðningsmenn Guðna voru hressir. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert