Össur óskar Guðna til hamingju

Össur Skarphéðinsson óskar Guðna Th. Jóhannessyni til hamingju.
Össur Skarphéðinsson óskar Guðna Th. Jóhannessyni til hamingju. mbl.is/Ómar Óskarsson

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, óskar Guðna Th. Jóhannessyni „hjartanlega til hamingju og ómældrar farsældar í starfi.“

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Össur að Guðna veiti ekki af velfarnaðaróskum. „Í haust er líklegt að hann standi andspænis mjög erfiðu verkefni, og hugsanlega ekki því síðasta á kjörtímabilinu.“

Össur segir að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hafi byrjað í kjörstöðu sem sá kandídatanna sem helst gat ógnað Guðna. „Hann gjörtapaði henni yfir til Höllu [Tómasdóttur] og gæti á þessari stundu lent í fjórða sæti sem óneitanlega verður meðal helstu tíðinda úr slagnum.“

Össur segist ekki hafa verið neinn sérstakur stuðningsmaður Andra Snæs Magnasonar fyrir kosningaslaginn en að hann hafi í vaxið í áliti hjá honum. „Fer hann í pólitík? Kannski, ef það verður alvöru uppstokkun á vinstri vængnum.“

Svo skrifar Össur:

„Ólafur Ragnar benti á að tölfræði úrslitanna er töluvert öðruvísi en flestir gerðu ráð fyrir. Guðni fékk mun minna fylgi en hann naut i upphafi baráttunnar. Nýr forseti þarf að skoða sjálfan sig upp á vegferðina fram undan.

Halla fékk hins vegar miklu meira. Halla gerði rosalegt mót, full af sjálfstrausti og tók kosningabaráttuna á ippon. Hún er eiginlega sigurvegari sjálfrar kosningabaráttunnar og er líklega ekki búin að segja sitt síðasta orð í stjórnmálum.

Kannski verður það „girl power“ alla leið…“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert