Væntir góðs samstarfs við forseta

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, er ánægð með úrslit forsetakosninganna og óskar nýjum forseta til hamingju. Í samtali við mbl.is segist hún vænta góðs samstarfs við Guðna Th. Jóhannesson af hálfu alþingismanna.

Hún segir það helst hafa komið á óvart í gær hversu sterkan lokasprett Halla Tómasdóttir átti í kosningabaráttunni. „Það hleypti spennu í þetta. Það var merkilegt að sjá hvernig kosningabaráttan þróaðist en úrslitin eru í takt við nánast hverja einustu könnun frá því að Guðni gaf kost á sér þannig að úrslitin koma í sjálfu sér ekki á óvart,“ segir Katrín.

Hún var stödd á Charles de Gaulle-alþjóðaflugvellinum í París á heimleið þegar mbl.is náði tali af henni. „Ég er búin að vera hér á fundum en náði þó að sjá leikinn í París,“ segir Katrín. Spurð hvort það sé ekki skandall að koma heim til Íslands degi fyrir leik Íslands og Englands í Nice á morgun skellir hún upp úr. „Jú, þetta er skandall, en nú fær einhver annar að njóta,“ segir Katrín á léttu nótunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert