Veit ekki fyrir hvað Guðni stendur

Fullt er út úr dyrum á kosningavöku Andra Snæs Magnasonar í Iðnó og mikið líf er í stuðningsfólki hans, sem skemmtir sér vel.

Andri segir mikið fylgi Höllu Tómasdóttur ekki koma sér á óvart og þegar hún hafi verið að mælast með 2% fylgi hafi hann alltaf talið það vitleysu. Þá segir hann leiðinlegt að hann hafi ekki fengið að takast á við hana og Guðna, sem hann segir vera þá frambjóðendur sem sækja fylgi til líkustu hópanna.

„Þetta sýnir dálítið mikið mátt sjónvarpsins. Það er sama hvað þú „facebookar“ eða kaupir heilsíðuauglýsingar, sjónvarpið er langöflugasti miðillinn. Mér fannst kannski vanta í þessari baráttu að við þrjú fengjum að takast á um framtíðina og okkar sýn á embættið. Mér fannst að sigurvegarinn hafi kannski sloppið of vel frá því.“

Þá segist hann telja mjög góðan dreng búa í Davíð Oddssyni, sem sé góður í viðkynningu og persónulegum samskiptum.

Inntur eftir skoðun sinni á Guðna Th. Jóhannessyni segir Andri hann þurfa að sanna sig.  „Ég veit nefnilega ekki alveg fyrir hvað hann stendur, svo hann þarf að sanna sig. Hann var að hrósa Brexit, sem mér finnst svolítið ískyggilegt, vegna þess að Brexit er að næra öfgaöfl í Evrópu og mér finnst það ekki vel lesið í tíðarandann. Mér sem manni sem hefur alltaf reynt að hafa tilfinningu fyrir framtíðinni finnst það ekki vel lesið.“

Segir hann leiðinlegt að hafa ekki fengið að takast á við Guðna meira en raunin varð. „Ég óska honum til hamingju auðvitað, en ég sakna þess alveg rosalega í þessari baráttu að hafa aldrei átt orðastað við hann. Það voru sjö mínútur í sjónvarpinu og svo í hringborðum annars staðar, en ég gat aldrei átt raunverulegan orðastað við hann. Þannig að vissu leyti finnst mér þessi kosningabarátta hafa farið fram án þess að fara fram.“

Að lokum segist Andri hafa farið fram með mjög skýr málefni og þau hafi komist á dagskrá í baráttunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert