„Óx meira en við þorðum að vona“

Halla Tómasdóttir er þakklát fyrir þann mikla stuðning sem hún …
Halla Tómasdóttir er þakklát fyrir þann mikla stuðning sem hún fékk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er bara gleði á mínu heimili. Við óskum Guðna og Elizu til hamingju, bæði með nýtt hlutverk í lífinu og afmælisdaginn auðvitað og erum bara ákaflega glöð og þakklát fyrir okkar jákvæðu og uppbyggilegu vegferð og þann stuðning og meðbyr sem við fengum í henni.“

Þetta segir Halla Tómasdóttir, sem segir það mikla fylgi sem hún hlaut í kosningunum hafa komið sér á óvart. „Það kom mér ekki á óvart að ég væri með vaxandi meðbyr, ég var búin að finna það. En hann óx meira en við þorðum að vona síðustu daga og kannski bara síðasta sólarhringinn, eftir síðasta sjónvarpsviðtalið.“

Sjónvarpstíminn mikilvægur

Spurð hverja hún telji ástæðu þessa mikla, síðbúna fylgis, segir Halla sjónvarpið mikilvægan miðil og það hafi skilað sér að komast að fyrir framan fleira fólk.

„Ég er hefði alveg kosið að hafa fengið fleiri tækifæri í því, en ég var bæði með einstaklingsviðtalið mitt á RÚV og þetta samtal á milli frambjóðenda á Stöð 2 og RÚV og við fundum vaxandi viðbrögð við því. Auðvitað er ég tiltölulega lítið þekkt þegar við förum af stað, svona hjá almenningi, og sjónvarp er nálgun til að ná til fleiri en þú nærð til með fundum, jafnvel þó þú sért duglegur í því og það er mikilvægur þáttur.“

 „Svo held ég að ef þú brennur fyrir eitthvað, eins og ég brenn fyrir þá sýn sem ég lagði af stað með og ræddi um, að þá skín einlægnin í því í gegn, með tímanum. En þú þarft nokkur tækifæri til að koma fram og fyrir framan sem flesta til að ræða það, áður en fólk getur náð því.“

Útilokar ekki annað framboð 

Halla útilokar ekki að bjóða sig fram til forseta aftur í framtíðinni, en segist þó ekki vera að hugsa um það núna. „Ég held að enginn eigi að taka slíkar ákvarðanir svona skömmu eftir, en allavega var vegferðin ánægjuleg og ég vil ekki útiloka það. Ég verð ábyggilega komin á kaf í önnur spennandi verkefni og ekkert víst að tímasetningin verði rétt þá. Fyrir utan að ég geri ráð fyrir að Guðni eigi eftir að standa sig mjög vel í starfi og verði lengur en eitt tímabil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert