Bryndís stefnir á fjórða sætið

Bryndís Haraldsdóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Ljósmynd/Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, hyggst gefa kost á sér í 4. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi sem fram fer 10. september vegna þingkosninganna í haust. Þetta kemur fram í framboðstilkynningu.

Bryndís er formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar og hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Mosfellsbæ og Sjálfstæðisflokkinn. Bryndís situr í stjórn Strætó bs og er fyrrverandi stjórnarformaður í Strætó bs. Hún situr í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins og skólanefnd Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Bryndís hefur starfað sem bæjarfulltrúi frá árinu 2010, áður var hún varabæjarfulltrúi og varaþingmaður á árunum 2003-2009.

„Bryndís hefur verið í eigin atvinnurekstri og starfaði lengi að nýsköpunar- og frumkvöðlamálum hjá Impru Nýsköpunarmiðstöð. Bryndís hefur tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins allt frá því hún gekk til liðs við flokkinn árið 2002. Bryndís hefur meðal annars stýrt atvinnuveganefnd flokksins, setið í stjórn SUS og stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna, fulltrúaráði og kjördæmisráði,“ segir ennfremur.

Bryndís er viðskiptafræðingur að mennt og jafnframt menntuð í stjórnsýslufræðum. Bryndís er gift Örnólfi Örnólfssyni rafvirkjameistara og eiga þau þrjú börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert