„Ofmat á Sjálfstæðisflokknum“

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar. Hún segir ákjósanlegast er að …
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar. Hún segir ákjósanlegast er að vera með hreint tilviljanakennt úrtak í skoðanakönnunum og gefa sér góðan tíma a.m.k. viku til að ná þokkalegu svarhlutfalli. Ljósmynd/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Mikill munur er á aðferðafræði skoðanakannana Fréttablaðsins, Vísis og Stöðvar 2 og MMR á fylgi stjórnmálaflokkana. Svarhlutfall er ekki reiknað rétt út í könnun Fréttablaðsins og þeir sem hafa áhuga á stjórnmálum eru líklegri til að svara könnun MMR. Þetta segir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands

„Það er líklegt að raunverulega niðurstaðan liggi þarna á milli því það er alltaf einhver munur milli net- og símakannana,” segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar.

„Í könnun Fréttablaðsins kemur fram að náð er í 960 manns og svarhlutfallið er sagt 83,3%. Þarna er einhver misskilningur á því hvernig svarhlutfall er reiknað. Það kemur ekki fram hversu stórt úrtakið var sem tekið var úr þjóðskrá til að ná í þessa 960 einstaklinga. Svarhlutfall á að reiknast út frá heildarúrtaki en ekki út frá því hvað það eru margir sem svara símanum. Þessi 83,3% eru væntanlega þeir sem samþykkja að svara könnuninni sem er allt annar hlutur en svarhlutfall,“ segir hún.

Skekkja í úrtakinu

Einn hópur er líklegri til að lenda í könnun Fréttablaðsins en annar. „Þegar kannanir eru gerðar á svona stuttum tíma ertu með hóp sem er líklegri til að lenda í könnuninni en annar. Í fyrsta lagi er það fólk sem er með skráð símanúmer,er heima á þessum degi og svarar símanum. Það er líklegt að skekkja sé í þessum hópi t.d. er mikið af ungu fólki ekki með skráðan síma. Út frá reynslu okkar af símakönnunum á svona stuttum tíma hugsa ég að þetta sé ofmat á Sjálfstæðisflokknum,” segir Guðbjörg.

Í könnunum er tekið úrtak úr þjóðskrá og þekktar líkur eiga að vera á því að lenda í slíku úrtaki. Hún bendir á að í hverju úrtaki séu margir sem ekki eru með skráð símanúmer. Þar af leiðandi er ekki raunhæft að fá svarhlutfall í könnun á einum degi sem er 83,3% eins og kemur fram í könnum Fréttablaðsins. Í könnun Fréttablaðsins blandast saman kvótaaðferð og tilviljanaaðferð. Úrtakið í könnuninni er ekki hreint tilviljanaúrtak heldur er einnig notast við kvótaaðferð. Það er þegar haldið er áfram að ná í fólk þar til búið að fylla upp í ákveðinn kvóta.

Það er líka mikil óvissa í könnun Fréttablaðsins því það er ekki nema um helmingur sem tekur afstöðu til hvaða flokks hann myndi kjósa, að sögn Guðbjargar. Heldur fleiri tóku afstöðu í könnun MMR eða 80,4% sem gáfu upp afstöðu. „Það er líklegt að raunverulega fylgið liggi einhvers staðar á milli þessara tveggja kannana því það er alltaf einhver munur milli net- og símakannana.”

Oft erfitt að fá ákveðna hópa

Í könnun MMR liggur svarhlutfallið heldur ekki alveg ljóst fyrir. Í þeirri könnun var notast við svokallaðan netpanel en þá hafa þátttakendur þegar samþykkt að taka þátt í könnun. Þeirri aðferð fylgir einnig ákveðin skekkja, að mati Guðbjargar. „Oft er erfiðara að fá ákveðna hópa til að taka þátt í panelum, t.d. þá sem eru með minni menntun og elsta aldurshópinn. Einnig höfum við séð að þeir sem hafa áhuga á pólitík vilja frekar taka þátt í netapanel,” segir Guðbjörg.

Ákjósanlegast væri að vera með hreint tilviljunarúrtak í slíkum skoðanakönnunum. Einnig þarf að gefa sér nægan tíma, viku til 10 daga til að ná þokkalegu svarhlutfalli, að mati Guðbjargar.

Hún segir kosti og galla fylgja báðum könnunum en í þessu samhengi bendir hún á að könnun MMR nái yfir lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert