„Ég er ekki á neinu hættusvæði

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður.
Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er hvorki ánægður né óánægður,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is inntur viðbragða við þeirri ákvörðun kjördæmisráðs flokksins í Suðvesturkjördæmi að gera breytingar á niðurstöðum prófkjörsins í kjördæminu. 

Bryndís Haraldsdóttir, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, var færð upp í annað sæti framboðslistans en hún hafnaði í fimmta sæti í prófkjörinu. Þar með var Jón Gunnarsson alþingismaður færður niður í þriðja sætið, Óli Björn Kárason ritstjóri niður í fjórða sætið og Vilhjálmur niður í fimmta sætið. Sjálfstæðisflokkurinn fékk fimm þingsæti í kjördæminu í síðustu kosningum.

Vilhjálmur segir mikilvægt að sátt sé um málið. „Við erum með fimm þingmenn núna og á mörkunum með þann sjötta og ef allt fer fram sem horfir þá eigum við að hafa fimm til sex þingmenn. Þannig að ég er ekki á neinu hættusvæði þannig lagað. En hins vegar segi ég alltaf að ég eigi fjórða sætið. Ég fékk það síðasta og núna og er fæddur í fjórða mánuði ársins.“

Prófkjörið var gagnrýnt í ljósi þess að það skilaði fjórum körlum í efstu sætin. Vilhjálmur segir málið vekja upp spurningar um prófkjör í framtíðinni þegar búið er til reglurnar eftir á. Vísar hann þar til þess að þó kjörnefnd hafi vald til þess að breyta framboðslistum þá verði að liggja fyrir með skýrum hætti fyrirfram hvaða breytingar kunni að verða gerðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert