Lögregla verður ritari

Jón Björn Hákonarson er nýr ritari framsóknarflokksins. Hann er formaður …
Jón Björn Hákonarson er nýr ritari framsóknarflokksins. Hann er formaður bæjarráðs í Fjarðarbyggð og er búsettur á Neskaupstað.

„Ég var tilbúinn að leggja mig fram í þetta starf ef flokksmenn vildu nýta það. Ég er óskaplega ánægður með þessa niðurstöðu,“ segir Jón Björn Hákonarson sem var kjörinn ritari Framsóknarflokksins á flokksþingi um helgina. Jón Björn er forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar og hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2010 og verið formaður bæjarráðs jafnlengi. Hann hefur tekið virkan þátt í stjórnmálum frá tvítugsaldri og setið í hinum ýmsu ráðum og nefndum á vegum sveitarfélagsins.  

Frétt mbl.is: Jón Björn nýr ritari 

Jón Björn segir ekki síður tækifæri felast í því að ritari flokksins sé sveitarstjórnarmaður en ekki þingmaður eins og verið hefur um árabil. Hann bindur vonir við að þetta fyrirkomulag eigi eftir að styrkja starfið innan flokksins. „Ég vona að mín reynsla eigi þannig eftir að nýtast forystu flokksins vel,” segir hann.    

Flokkur með mikla lýðræðislega hefð

Hvernig lítur þú á stöðu flokksins eftir flokksþingið?

„Það er auðvitað öllum ljóst að alltaf þegar menn fara í kosningar sem þessar að það geisa vindar á meðan á því stendur. Ég held samt engu að síður að við höfum sýnt og sannað að við leystum málin á lýðræðislegan hátt. Nú er bara að snúa bökum saman. Framsóknarflokkurinn er 100 ára gamall og hefur mikla og sterka lýðræðislega hefð. Staðan okkar er sterk,” segir

Hvort studdir þú Sigmund Davíð Gunnlaugsson eða Sigurð Inga Jóhannsson til formanns?

„Þegar ég fór í framboð vildi ég ekki fara með það opinberlega. Ég hef mínar skoðanir á formannsembættinu. Við Sigurður Ingi munum eiga gott samstarf. Það er engin hætt á öðru.“

Gerir ráð fyrir að Sigmundur leiði áfram listann

Hvernig líturðu á framtíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar innan flokksins?

„Sigmundur vann með afgerandi hætti í Norðausturkjördæmi. Ég geri ráð fyrir því að hann leiði þann lista áfram með glæsibrag eins og til var stofnað. Í sínum störfum sem formaður hefur Sigmundur skilað miklu og góðu starfi sem við njótum ávaxta. Hann hefur sýnt það og sannað í sínum verkum að hann er mikill stjórnmálamaður.“

Líturðu á starf ritara flokksins sem skref í átt að þingmennsku?

„Ég hef ekki velt því mikið fyrir mér. Ég ætla að takast á við þetta starf og skila því eins vel og ég get og halda áfram að sinna mínum sveitarstjórnarstörfum. Svo veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Það fer eftir því hvað mínir flokksfélagar vilja.“

Í vikunni kemur ný framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins saman í fyrsta skipti. Fyrirhugaðar kosningar eru efstar á baugi. 

Norðfirðingur búsettur á Neskaupstað

Jón Björn starfar í lögreglunni í Fjarðarbyggð og hefur gert síðastliðið eina og hálfa árið.

Jón Björn er fæddur og uppalinn á Norðfirði en er búsettur á Neskaupstað með eiginkonu sinni og tveimur börnum 9 og 13 ára. Kona hans Hildur Vala Þorbergsdóttir er deildarstjóri sérkennslu í grunnskólanum á Neskaupstað, Nesskóla. Leiðir þeirra hjóna lágu saman þegar hún fékk kennarastöðu við skólann. En Jón Björn var þá formaður  fræðslunefndar og var einmitt falið að  fá grunnskólakennara til starfa í sveitarfélaginu.   

Núverandi og fyrrverandi formenn Framsóknarflokksins.
Núverandi og fyrrverandi formenn Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka