Flókin stjórnarmyndun framundan?

Píratar mælast stærsti flokkur landsins.
Píratar mælast stærsti flokkur landsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þó Píratar hafi farið upp og Sjálfstæðisflokkur niður þá eru þessar hreyfingar eiginlega á öllum flokkum innan skekkjumarka,“ segir Grétar Þ. Eyþórsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri. Píratar mælast stærsti flokkur landsins í könnun sem gerð var fyrir Morgunblaðið.

Píratar og Sjálfstæðisflokkur fengju hvor um sig 15 þingmenn, yrði þetta niðurstaðan í kosningunum. „Það er varla hægt að átta sig á því í augnablikinu hvor er stærri, Sjálfstæðisflokkurinn eða Píratar. Vinstri grænir eru síðan einu skrefi á eftir þeim,“ segir Grétar en VG fengju 13 þingmenn ef gengið yrði til kosninga núna.

Hann bendir á að hinir flokkarnir sé á einhverju flökti, undir tíu prósentum en yfir fimm. „Þeir hafa smá sætaskipti milli kannana en virðast allir örugglega inni.“

Flest allt bendir til þess að sjö flokkar nái mönnum inn á þing; Píratar, Sjálfstæðisflokkur, VG, Framsókn, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylking. „Við sjáum fyrir okkur flókna og erfiða stjórnarmyndun væntanlega. Það má eitthvað mikið gerast til að það verði ekki sjö flokkar á þingi.

Erfið staða Samfylkingarinnar

Fylgi Samfylkingarinnar mælist 6,5% en það hlýtur að teljast áhyggjuefni á þeim bænum. Flokk­ur­inn næði ekki inn manni í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður, en þar leiðir Össur Skarp­héðins­son þingmaður list­ann. „Þeir eru að fá helmingun á fylginu frá því í síðustu kosningum og þá settu þeir Evrópumet í tapi milli kosninga. Þetta hefur verið svakalega erfið þróun fyrir Samfylkinguna og það er eins og þeir nái ekki að lyfta sér upp úr þessu.“

Grétar telur að margir kjósendur muni taka afstöðu mjög seint. „Hvort að það hafi áhrif á heildarmyndina er mjög erfitt að átta sig á.“ Kosið verður laugardaginn 29. október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert