Viðreisn sýnir spilin fyrir kosningar

Fulltrúar Viðreisnar á blaðamannafundi á Höfðatorgi í dag.
Fulltrúar Viðreisnar á blaðamannafundi á Höfðatorgi í dag. mbl.is/Golli

Viðreisn hefur sett fram ítarlega stefnu fyrir komandi kjörtímabil þar sem tilteknar eru tekjur af skattbreytingum og útgjöld til helstu málaflokka. Áhersla er lögð á að stórauka útgjöld til heilbrigðiskerfisins, fjármagna innviði með uppboði á aflaheimildum og lækka vexti með því að festa krónuna við erlendan gjaldmiðil. Þetta kom fram á blaðamannafundi Viðreisnar sem haldinn var um hálf tólfleytið í dag. 

Benedikt Jóhannesson formaður tók fyrstur til máls og sagði flokkinn hafa verið stofnaðan til að rjúfa kyrrstöðuna í íslenskri pólitík. Hann sagði aðra flokka setja fram kosningaloforð sem kosti allt frá 100 til 200 milljarða án þess að tala sérstakega um fjármögnun. Markmiðið Viðreisnar væri að lífskjör á Íslandi yrðu sambærileg við nágrannalöndin og til þess yrði að lækka vaxtakostnað. 

Viðreisn leggur til að íslenska krónan verði fest við annan gjaldmiðil og þannig megi lækka vexti um 2-4%. Miðað við 3% lækkun megi lækka vaxtakostnað fyrir meðalfjölskylduna um 50.000 krónur á mánuði. Þá er lækkun vaxtakostnaðar fyrir ríkissjóð stór þáttur í stefnuyfirlýsingunni.

Áætlaðar breytingar á tekjum og útgjöldum fyrir komandi kjörtímabil.
Áætlaðar breytingar á tekjum og útgjöldum fyrir komandi kjörtímabil. Viðreisn

Fjórar stoðir fjármögnunar

Þorsteinn Víglundsson ræddi fjármögnunarhlið áætlunarinnar og kynnti fjóra þætti til að standa undir kostnaði við kosningaloforðin:

  • Lækkun vaxtakostnaðar ríkissjóðs
  • Uppboð á aflaheimildum
  • Hagræðing í ríkisfjármálum
  • Sala á ríkiseignum

Tekjur af uppboði aflaheimilda munu renna í sérstakan innviðasjóð. Gert er ráð fyrir um 15 til 20 milljörðum á ári og að landshlutar komi beint að ráðstöfun fjármagnsins. Þá er stefnt að því að hækka framlög til háskóla um átta milljarða yfir kjörtímabilið. Þorsteinn sagði að menntakerfið væri úrelt að mörgu leyti og nauðsynlegt væri að ráðast í tæknivæðingu. 

Stóraukning til heilbrigðismála

Að lokum tók Hanna Katrín Friðriksson til máls um stærsta útgjaldaliðinn í áætluninni: heilbrigðismálin. Í samanburði við 25 milljarða króna aukningu til næstu fimm ára sem er þegar á dagskrá samkvæmt gildandi ríkisfjármálaáætlun stefnir Viðreisn að aukningu sem nemur 39 milljörðum. Í aukningunni felast meðal annars aukin fjárlög til öldrunarþjónustu, lýðheilsumála og minnkun greiðsluþátttöku almennings um fjóra milljarða á ári. Að auki við þessa39 milljarði er einnig stefnt að uppbyggingu meðferðarkjarna við Landspítalann fyrir árið 2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert