Kaus í bandarískri flísadeild

Arngrímur Vídalín, doktorsnemi í Bandaríkjunum.
Arngrímur Vídalín, doktorsnemi í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Arngrímur Vídalín

Fjölmargir Íslendingar í Bandaríkjunum eru ósáttir við James F. Gerrity III, kjörræðismann Íslands í Woburn í Massachusetts-ríki vegna atkvæðagreiðslu utankjörfundar. Einn þeirra er Arngrímur Vídalín sem er í doktorsnámi við Háskóla Íslands en er staddur í Bandaríkjunum við fræðistörf. Hann segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við Gerrity vegna rangrar upplýsingargjafar og slæmrar þjónustu.

Viðskipti sín við Gerrity rekur Arngrímur á Facebook-síðu sinni og ennfremur í bréf sem hann sendi utanríkisráðuneytinu. Hann segir ræðismanninn hafa gefið íslenskum kjósendum kost á að hitta sig á tilteknum stað síðast sunnudag á milli klukkan 13-15. Þegar Arngrímur hafi mætt á staðinn með fjölskyldu sína um klukkan tvö hafi Gerrity hins vegar á förum. Þá hafi hann aðeins átt eftir tvo kjörseðla þannig að Arngrímur og fleiri hafi ekki getað kosið.

„Ræðismaðurinn sagði að hann ætti von á fleiri kjörseðlum á miðvikudeginum 26. október en að það væri allt í lagi ef við póstlegðum atkvæðin samdægurs. Hann fullvissaði okkur ennfremur um að það væri dagsetningin á póststimplinum sem gilti, en ekki hvenær atkvæðin bærust, svo ef atkvæði væru póstlögð fyrir kjördag þá yrðu þau samt tekin gild þegar þau bærust,“ segir í bréfi Arngríms. Þetta hafi þeim hins vegar þótt gruggugt og því kannað málið.

Ræðismaðurinn hefði haldið því fram að honum hefði verið tjáð þetta af sendiráðinu í Washington. Kjörgögn hafi síðan borist á þriðjudagsmorguninn vegna þrýstings frá kjósendum. „Ég fór og kaus í múrbúð ræðismannsins en hitti ekki hann sjálfan, heldur hafði hann þjálfað starfsmann til að útskýra fyrir mér hvernig þetta gengi fyrir sig og hvar ég fyndi pósthúsið í Woburn,“ segir Arngrímur. Bæði Gerrity og starfsmaðurinn hafi fullyrt að pósthúsið myndi koma atkvæðinu til Íslands á tveimur dögum. Það er að segja í gær fimmtudag.

Kann að hafa kostað atkvæði margra

„Þegar komið var í pósthúsið reyndist það ekki vera rétt; pósturinn gat aðeins ábyrgst að atkvæðið yrði komið til Íslands klukkan 18 á föstudagskvöldi. Sama reyndist vera uppi á teningnum hjá FedEx sem kom í ljós að er sami aðili og hefði sent þetta fyrir pósthúsið í Woburn,“ segir hann. Þetta þýddi að ræðismaðurinn hefði tvisvar sagt sér ósatt og veltir Arngrímur fyrir sér hver beri ábyrgðina á því.

Hann er harðorður um framgöngu Gerritys sem kunni að hafa kostað marga íslenska kjósendur þátttöku í þingkosningunum. „Ég lít þátttöku mína í lýðræðinu og í lýðræðislegum kosningum alvarlegum augum og geri þá kröfu að yfirvöld og embættismenn taki hana ekki síður alvarlega. Mér finnst ólíðandi hvernig að málum hefur verið staðið hér.“ Arngrímur fékk svar frá sendiráði Íslands í Bandaríkjunum sem bauðst til þess að koma atkvæði hann til landsins með flugi. Hann hafði þá sjálfur gert slíkar ráðstafanir og telur hann að fyrir vikið muni það skila sér í tæka tíð.

„Ennfremur finnst mér tilefni til, í ljósi þess hversu illa hefur verið að málum staðið hér, að allt fyrirkomulag utankjörfundaratkvæðagreiðslna erlendis verði endurskoðað. Þetta þarf allt að vera skýrt og staðlað og nákvæmar upplýsingar um hvar, hvenær og hvernig hlutirnir eiga að vera gerðir,“ segir ennfremur í bréfinu. Ófullnægjandi sé að kjósa til Alþingis í flísadeild múrverslunar eftir samkomulagi.

Vinnubrögðin séu óásættanleg jafnvel þó atkvæði hans komist til skila. „Mér finnst íslenska ríkið hafa lítilsvirt kosningarétt minn. Það er ekki góð tilfinning til að hafa lúrandi í maganum þegar talið verður upp úr kjörkössum á laugardaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert