Hefur ágætis hugmyndir

Bjarni Benediktsson á fundi með forseta Íslands í morgun.
Bjarni Benediktsson á fundi með forseta Íslands í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Við ætlum vafalaust að fara yfir niðurstöður kosninganna og ræða það hvernig best væri að standa að stjórnarmyndun í framhaldinu,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann kom til Bessastaða í morgun til viðræðna við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands.

Spurður hvort hann hefði einhverjar hugmyndir í þeim efnum sagði Bjarni: „Já já, ég er með ágætis hugmyndir sem ég ætla að ræða við forsetann og ég hef trú á því aðvið munum geta myndað góða stjórn eftir þessar kosningar. En auðvitað verða hlutirnir að hafa sinn rétta ganga og það byrjar á þessum fundi.“

Spurður um viðræður Sjálfstæðisflokksins við Viðreisn og Bjarta framtíð sem greint var frá í Fréttablaðinu í morgun sagði Bjarni í sjálfu sér ekkert að gerast annað en það að hann hafi heyrt hljóðið í nokkrum flokks formönnum. Það hafi verið ágætis spjall. Spurður áfram hvort það væri líklegasta samstarfið sagði Bjarni:

„Það er ekkert líklegra. Ég hef bara heyrt í nokkrum og það er ekkert líklegra umfram annað. En mér finnst að menn hafi skyldu til þess að aðeins heyrast. Ég var líka í sambandi við menn, eins og ég hef sagt, fyrir kosningar. Það hefur lengi legið ljóst fyrir að það yrði ekki mynduð tveggja flokka stjórn þannig að við verðum að tala saman.“

Bjarni var einnig spurður að því hvort hann ætti von á löngum stjórnarmyndunarviðræðum og sagðist hann ekki telja ástæðu til þess. „Ég er bara sannfærður um að það þurfi ekkert að taka mjög langan tíma þó það þurfi einhvern meðgöngutíma.“ Aðspurður sagðist hann eiga von á að fá stjórnarmyndunarumboðið.

„Ég geri svona frekar ráð fyrir því verð ég að segja í ljósi niðurstöðu kosninganna. Ég sé engan annan kost í sjálfu sér þó ég leyfi mér að horfa á málið frá mínum bæjarhól svona. Það finnst mér lýðræðislegasta niðurstaðan og ég met stöðuna þannig að það séu allar líkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði leiðandi í næstu stjórn.“

Bjarni Benediktsson fyrir utan Bessastaði í morgun.
Bjarni Benediktsson fyrir utan Bessastaði í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert