Viðreisn og Björt framtíð með lykilinn

Stefanía telur Viðreisn og Bjarta framtíð vera lykilflokka í myndun …
Stefanía telur Viðreisn og Bjarta framtíð vera lykilflokka í myndun nýrrar ríkisstjórnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Lykillinn er í höndum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. „Það var ljóst að lykillinn að myndun nýrrar ríkisstjórnar yrði í höndum miðjuflokkanna en Framsókn hefur ekki fengið aðkomu að viðræðum eða haldið sig fyrir utan þær.“

Stefanía segir að það hafi komið sér á óvart að Guðni Th. Jóhannessyni, forseti Íslands, hafi falið Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, umboðið til stjórnarmyndunar. „Ég var pínu hissa eins og svo margir aðrir en þetta var kannski viðbúið miðað við þá röð sem Guðni hefur verið að fara eftir.“

Dr. Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Dr. Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Vinstri stjórn líklegri

Stefanía telur samstarf frá vinstri til miðju vera líklegasta kostinn í stöðunni. Margir hafi útilokað samstarf við Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn og því hafi Sjálfstæðisflokkurinn í raun tiltölulega fáa viðsemjendur. Auk þess sé ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir nái saman.

„Mér finnst Vinstri grænir, Samfylkingin, Píratar og Björt framtíð eiga tiltölulega mikið sameiginlegt en Viðreisn er kannski dálítið á skjön.“ Þá telur Stefanía ólíklegt að Píratar myndi stjórn með öðrum flokkum. „Þeir eiga langmesta samleið með þessum vinstri flokkum. Það kom betur á daginn í aðdraganda kosninganna að þar liggur þeirra hjarta.

„Hægri, vinstri, snú“

Hún segir það þó eiga eftir að koma í ljós hvernig viðræður flokkanna fimm muni ganga. „Það kom í ljós eftir að þessar viðræður fóru út í sandinn síðast að Píratar voru ansi svekktir og töldu að þeim hefði verið slitið of snemma. Þeir hefðu viljað skoða þær tillögur sem komu frá Viðreisn þannig að við skulum sjá hvort þeir nái betur saman núna en áður.“

Stefanía segir niðurstöðurnar í raun vera í höndum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. „Þetta er og hefur verið í þeirra höndum. Þeir eru búnir að vera að skoða málin. Búnir að fara hægri, vinstri, snú og svo er bara að sjá hvar þeir lenda.“

Píratar vilja endurvekja viðræður við Vinstri græna, Viðreisn, Bjarta framtíð …
Píratar vilja endurvekja viðræður við Vinstri græna, Viðreisn, Bjarta framtíð og Samfylkingu. mbl.is/Árni Sæberg

Fleiri utanþingsráðherrar

„Við getum væntanlega búist við að það yrði svolítið óhefðbundnara en það hefur verið,“ segir Stefanía, spurð um skiptingu á ráðherrastólum ef fimm flokka stjórn yrði að veruleika. Hún telur líklegt að utanþingsráðherrar yrðu fleiri en þeir hafa verið og að mögulega yrði ráðherrastólunum skipt á annan hátt en hefð er fyrir á Íslandi.

„Það hefur verið hefð fyrir því hérna að skipta ráðherrastólunum nokkurn veginn jafnt á milli flokka. Alþjóðlega er það miklu algengara að ráðuneytunum sé skipt í samræmi við þingstyrk en það er spurning hvernig það yrði ef fimm flokka stjórn yrði raunin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert