Ákall um að Katrín verði ráðherra

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Mikið fylgi Vinstri grænna í nýlegri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar á fylgi flokkanna gæti að einhverju leyti skýrst af ákalli um að Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, verði forsætisráðherra. Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Vinstri grænir fengu 30% fylgi í skoðanakönnuninni og segir Grétar Þór að þetta stökk hafi komið á óvart. Engu að síður hafi flokkurinn jafnt og þétt verið að bæta við sig fylgi. „Maður veltir fyrir sér hvort þetta geti að einhverju leyti skýrst af ákalli um að Katrín verði forsætisráðherra. Það rímar við aðrar spurningar úr þessari sömu könnun. Þetta fylgi VG gæti að einhverju leyti verið persónufylgi við Katrínu enda er hún búin að vera vinsæll stjórnmálamaður lengi,” segir hann.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á blaðamannafundi í Valhöll..
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á blaðamannafundi í Valhöll.. mbl.is/Árni Sæberg

Gæti náð vopnum sínum aftur

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 23 prósenta fylgi og fengi fimmtán þingmenn kjörna sem er sex þingmönnum minna en hann hlaut í síðustu kosningum. Grétar Þór segir það mögulegt að flokkurinn nái vopnum sínum að einhverju leyti aftur og tapi kannski ekki svona miklu þegar kemur að kosningunum sjálfum.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Basl hjá Bjartri framtíð

Hvað Bjarta framtíð varðar, sem mældist með 3% fylgi eftir að hafa fengið 7,2% í síðustu kosningum segir hann erfitt að átta sig á því hvort stjórnarslitin valdi þessu litla fylgi í könnuninni. „Þau voru mjög neðarlega í könnunum í fyrra þangað til þau náðu einhverju „mómenti” sem tengdist búvörusamningunum. Það er miklu erfiðara að ná svoleiðis „mómenti” núna. Þau eru nýkomin úr ríkisstjórn og hafa ekki sömu vopn í höndunum  og þau höfðu fyrir ári  til að sækja fylgi. Ég held að þetta gæti orðið dálítið basl hjá þeim að hanga inni á þingi.”

Frá þingflokksfundi Viðreisnar.
Frá þingflokksfundi Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðreisn þarf að snúa við blaðinu

Grétar Þór segir að svo virðist sem Viðreisn muni tapa á því að kosið verður í næsta mánuði. Viðreisn þurfi að snúa blaðinu hressilega við til að koma í veg fyrir það. Flokkurinn mældist með 6% fylgi í könnuninni en var með 10,5% fylgi í kosningunum síðustu. „Þessar mælingar sem við höfum sýna að það getur orðið erfitt fyrir þau að halda í alla sjö þingmennina.”

Spurður hvort frammistaða flokksins í ríkisstjórninni skýri fylgisfallið segir hann erfitt að segja til um það. „Það er ljóst að þeir lágu að einhverju leyti undir ámæli fyrir að hafa ekki náð nógu góðum málefnasamningi þegar ríkisstjórnin var mynduð.”

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

Skot út í myrkrið með Framsókn

Framsóknarflokkurinn mældist með 11% fylgi í könnuninni sem er svipað og í síðustu kosningum. Grétar Þór segir erfitt að átta sig á því hvert fylgi flokksins verður í kosningunum í ljósi þeirra tíðinda að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði sig úr flokknum í gær. „Maður er eiginlega að skjóta út í myrkrið ef maður ætlar að átta sig á hvað verður og hvað Sigmundur getur tekið til sín á landsvísu. Ég er nokkuð sannfærður um að hann á mikla möguleika á að komast inn fari hann fram í Norðausturkjördæmi en svo er meiri spurning um restina af landinu,” greinir hann frá.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samfylkingin nær ekki fyrri styrk

Samfylkingin mældist með 8% fylgi í könnuninni en var með 5,7% í kosningunum og býst Grétar Þór við að eitthvað muni fjölga hjá flokknum í þingliðinu. „En þeir eru ekkert að ná fyrri styrk. Það stefnir í að þeir verði smáflokkur áfram.”

Frá þingflokksfundi Pírata.
Frá þingflokksfundi Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lægsta mæling Pírata í langan tíma

Grétar Þór kveðst ekki muna eftir eins lágri mælingu hjá Pírötum í langan tíma, en flokkurinn mældist með 10% í könnuninni. „Þeir hafa verið stöðugir með yfir 13% en maður þarf að sjá eina könnun í viðbót áður en maður fer að draga of miklar ályktanir,” segir hann og veltir fyrir sér hvort fylgi Pírata sé að einhverju leyti að fara yfir á Flokk fólksins. Hugsanlega sé eitthvert fylgi þeirra einnig farið að skila sér aftur til Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/RAX

Persónuáhrif Ingu Sæland

Spurður út í fylgi Flokks fólksins sem mældist með 9 prósenta fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar segir hann að flokkurinn hafi verið í sókn að undanförnu. Hann segir ljóst að persónuáhrif Ingu Sæland, formanns flokksins, hafi þarna töluverð áhrif.

„Þess vegna veltir maður því fyrir sér hvort Flokkur fólksins fái mikið þar sem hún býður fram og mun minna annars staðar en þó þetta samanlagt.  En það virðist sem hún sé miklu meira en örugg inn á þing. Ég veit ekki hverjir verða oddvitar í öðrum kjördæmum. Það er búið að nefna menn til sögu sem hafa verið áður í pólitík eða nálægt henni. Maður veit ekki hvort það hefur góð eða slæm áhrif en þetta eru dálítið Ingu Sæland-áhrifin sem virðast vera í gangi hjá flokknum.”

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Fjórflokkurinn með 72% atkvæða

Spurður almennt út í könnunina, hvort eitthvað sérstakt hafi komið honum á óvart umfram annað, segir hann svo ekki vera. „Manni finnst þetta rosalega hátt með Vinstri græn. Þau náðu ekki nærri því þessu þegar þau unnu stórsigur 2009. Þau mega kalla sig góð ef þau hanga á þessu. Þau yrðu örugglega mjög glöð ef þau næðu 25% á endanum,” segir Grétar Þór.

Hann bendir einnig á að í kosningunum fyrir ári hafi fjórflokkurinn svokallaði fengið 62% atkvæða en í könnuninni fyrir helgi var hann kominn upp í 72%.

„Það er spurning, þrátt fyrir allt, hvort hann sé að sækja í sig veðrið. Hvort kjósendur séu að fara að einhverju leyti yfir á eldri flokkana aftur. En þetta er ein könnun og fleiri kannanir verða að staðfesta svona lagað.”

Frá þingsetningu Alþingis.
Frá þingsetningu Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Ásgrímur Hartmannsson: 80%
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert