Þorsteinn fer úr Framsóknarflokknum

Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, hefur sagt skilið við flokkinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hann hefur sent á fjölmiðla en Þorsteinn sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn á árunum 2013-2016 en gaf ekki áfram kost á sér í þingkosningunum sem fram fóru á síðasta ári.

Þorsteinn segist hafa varað eindregið við því að farið væri í formannskjör rétt fyrir síðustu þingkosningar, þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson fór gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og hafði sigur, en á það hafi hins vegar ekki verið hlustað. Framsóknarflokkurinn hafi í kjölfarið beðið sinn versta ósigur í 100 ára sögu hans.

Frá þeim tíma hafi lítið verið gert til þess að græða sárin og auka samstöðuna. Í aðdraganda kosninganna 28. október hafi sá hópur sem stjórni Framsóknarflokknum ákveðið að ganga á milli bols og höfuðs á þeim sem orðið hafi undir á flokksþinginu fyrir ári.

„Markmiðið virðist vera að losa sig við fyrrum formann flokksins og þá sem stutt hafa hann dyggilegast. Þetta markmið hefur tekist. Undirritaður hefur í dag tilkynnt úrsögn sína úr Framsóknarfloknum, nokkuð sem ég taldi að aldrei myndi gerast. Ég þakka því góða fólki í Framsóknarflokknum sem ég hef starfað mest með og met mikils fyrir samstarfið og samveruna og vonast til að hitta það sem flest fyrir á nýjum vettvangi.“

Þorsteinn segir í samtali við mbl.is að hann ætli að ganga til liðs við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, og taka þátt í að móta það nýja stjórnmálaafl sem Sigmundur hefur boðað.

Fleiri framsóknarmenn hafa tilkynnt úrsögn úr Framsóknarflokknum í kjölfar ákvörðunar Sigmundar Davíðs að segja skilið við flokkinn. Þar á meðal formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur og formaður Framsóknarfélags Þingeyinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert