„Hótaði að taka þingið í gíslingu“

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sakar Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um að hafa beitt ógeðfelldum brögðum til að neyða aðra flokka til samkomulags um þinglok, og hótað að taka þingið í gíslingu féllust menn ekki á vilja hans.

„Ekki tókst að fá í gegn þá sjálfsögðu lýðræðisaukningu að breyta mætti stjórnarskrá með auknum meirihluta og skjóta þeim breytingum til almennings í þjóðaratkvæði. Bjarni Ben beitti þeim ógeðfelldu brögðum að nota bága stöðu barna í neyð sem pólitíska skiptimynt til að neyða aðra flokka til samkomulags um þinglok. Hann hótaði því að taka þingið í gíslingu ef við féllumst ekki á vilja hans sem note bene situr í vantraustsstarfsstjórn í forsætisráðherrastól um að taka breytingatillöguna út af borðinu,“ skrifaði Birgitta á Facebook-síðu sína í kvöld.

Hún segir að það hafi verið ömurlegt að horfa upp á vinnubrögð Bjarna. Hann hafi alfarið neitað að „ræða málin og hafði ekkert fram að færa nema hótanir og almennan dónaskap. Ég og mínir samflokksmenn gátum ekki fellt okkur við slík málalok og vorum því ekki tilbúin að fallast á þetta þinglokasamkomulag og hið sama gerði Samfylkingin.“

Birgitta segir að þau ætli að gera lokatilraun til að kanna vilja þingsins sem sé sá að það sé klár meirihluti fyrir þessari breytingu, en því miður sé það líka þannig að það hafi ekki verið „hægt að sannfæra hina um að fara bara hart í Bjarna og sjá hvort að hann hafi ekki bara verið að blöffa með þessari hótun um málþóf,“ skrifar hún.

Bjarni sagði í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni fyrr í kvöld, að nokkrir þing­menn færu mik­inn vegna þess að breyt­ing­ar á stjórn­ar­skránni væru ekki hluti sam­komu­lagsins. „Þannig seg­ir Smári McCart­hy, sem ný­lega var í frétt­um fyr­ir rætn­ar sam­lík­ing­ar við mál Jimmy Sa­vile, að ég hafi með aðkomu minni að þingloka­samn­ing­um hótað „að ógna lífi barna og neita þolend­um kyn­ferðisof­beld­is um rétt­læti, ef ekki yrði fallið frá mjög eðli­legri kröfu um lýðræðisúr­bæt­ur“,“ skrif­aði Bjarni og spurði hvort ekki sé komið ágætt af svona löguðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert