„Ætlum bara að vinna sem mest“

Jón Gnarr á fundi Samfylkingarinnar í dag.
Jón Gnarr á fundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Gnarr segist hafa skoðað hið pólitíska landslag áður en ákvörðun var tekin um að ganga til liðs við Samfylkinguna. „Ég var beðinn um að aðstoða við kosningabaráttuna og hef tekið það að mér.“

Hann segir sitt hlutverk að veita flokknum ráðgjöf í komandi kosningabaráttu. Hann hafi áður komið að kosningabaráttu, hafi reynslu og ágætisferilskrá. Hann segir aðdragandann þó frekar stuttan.

Greint var frá því á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar að Jón, sem er fyrrverandi borgarstjóri og stofnandi Besta flokksins, sé genginn til liðs við flokkinn. 

Hvernig sérðu möguleika Samfylkingarinnar í kosningunum?

„Mér finnst flokkurinn hafa mikla möguleika og alla burði til að koma á óvart. Það er mjög mikið af nýju fólki sem hefur ekki áður verið í pólitík með virkum hætti. Mér finnst þessi hópur hafa fullt af tækifærum og svo finnst mér líka einhver stemming í samfélaginu öllu fyrir samstarfi og samvinnu frekar en sundrungu,“ segir Jón. Spurður út í hvort flokkurinn hafi sett sér markmið um fjölda þingmanna eða fylgi segir Jón markmiðin einföld: „Bara að vinna sem mest.“

Jón segir ákveðin forréttindi að fá að vera hluti af kosningum án þess að vera sjálfur í framboði. „Ég hef aldrei prófað það. Ég hafði heldur ekki alveg áttað mig á því hvað fólk hefur oft miklar skoðanir á mér og það að ég haldi með hinum eða þessum skipti einhverju máli. Mig langar bara fyrst og fremst að fá tækifæri til að gera eitthvað gagn.“

Jón Gnarr ásamt Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrrum þingmanni, og Loga …
Jón Gnarr ásamt Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrrum þingmanni, og Loga Ólafssyni, formanni Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki ósáttur við ríkisstjórnina

Jón hefur haldið sig til hlés frá pólitíkinni síðan hann lét af embætti borgarstjóra vorið 2014. Hann segist þó ekki alveg vera með það á hreinu hvort hann sé skráður í Bjarta framtíð. „Ég var náttúrlega einn af stofnendum Bjartrar framtíðar. En eins og ég hef margoft sagt frá hef ég verið meðlimur í, held ég, öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi. Þá hef ég yfirleitt gengið í flokkana af einhverri ástæðu, en svo hef ég aldrei séð ástæðu til að segja mig úr þeim, úr því ég þarf ekkert að borga þeim pening,“ segir Jón og hlær.

Jón segist þó ekki yfirgefa Bjarta framtíð í fússi. En hvað fannst honum um það þegar hans gamli flokkur tók ákvörðun um að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn?

„Mér hefur fundist þetta gáfað og ábyrgt fólk [innan Bjartrar framtíðar], og ég fann ekkert að því. Það truflaði mig ekki neitt.“ Hann segir auðveldara fyrir fólk að hafa skoðun á hinum ýmsu málum þegar maður hefur enga ábyrgð.

Nánar er rætt við Jón í helgarblaði Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert