Vilja milljarð árlega gegn ofbeldismálum

Helga Vala Helgadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður kynnti aðgerðaráætlun …
Helga Vala Helgadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður kynnti aðgerðaráætlun í þessum efnum á fundi Femínistafélags Háskóla Íslands í dag. Ljósmynd/Samfylkingin

Samfylkingin segist vilja hefja stórsókn gegn hvers kyns ofbeldi, kynferðisofbeldi, netofbeldi sem og heimilisofbeldi. Vegna þessa vill flokkurinn setja einn milljarð króna árlega í málaflokkinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni.

Meðal þeirra atriða sem lagt er til að farið verði í er að fjölga lögregluþjónum, hækka laun þeirra, hafa viðvarandi fræðslu í skólum landsins, samræma þjónustu á neyðarmóttöku og bjóða ókeypis sálfræðiþjónustu.

Segir í tilkynningunni að lögregluþjónum hafi fækkað þrátt fyrir fjölgun íbúa og umtalsverða fjölgun ferðamanna. Er vísað til þess að árið 2007 hafi þeir verið 712 en í ár séu þeir 660. „Við verðum að hækka laun lögregluþjóna til að koma í veg fyrir frekari fækkun í stéttinni. Reynslumiklir lögregluþjónar fara til annarra starfa og allt of margir í langtímaveikindi vegna mikils álags,“ segir jafnframt í tilkynningunni. Þá vill Samfylkingin auka þekkingu til að hægt sé að bregðast hratt við netofbeldi.

Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að fræðsla um ofbeldi hvers konar hefjist strax í grunnskólum, en að hún verði einnig í mennta- og háskólum. Bæta á fræðslu til brotaþola og gerenda með það að leiðarljósi að gerendur skilji afleiðingar ofbeldis.

Í heilbrigðiskerfinu er svo lagt til að samræma þjónustu neyðarmóttökunnar um allt land. Þá er lagt til að sálgæsla verði hluti af gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert